*

Bílar 26. september 2015

Met í sölu lúxusbílanna

Mercedes-Benz hefur sett sölumet 30 mánuði í röð.

Sala á lúxusbílum hefur aldrei í sögunni gengið betur og bílaframleiðendur setja hvert sölumetið á fætur öðru. Til marks um það hefur Mercedes-Benz sett sölumet 30 mánuði í röð.

Fyrstu átta mánuði ársinshafa allir lúxusbílaframleiðendur aukið söluna, nema Jaguar Land Rover.

Aukningin er mest hjá Porsche eða 27,4% samanborið við sömu mánuði árið áður.

Aukningin hjá Mercedes-Benz er 15,1% og 10% hjá Lexus, BMW er með 5,5% og Audi 3,4%. Samdráttur var hjá Jaguar Land Rover um 1%.

Í ágúst seldi Mercedes-Benz flesta bíla allra lúxusbílaframleiðenda, eða 146.119. BMW seldi 135.735 og Audi 128.650. Salan hjá Lexus var 55.701 bíll, Volvo seldi 30.195 bíla, Land Rover 23.992 og Porsche 17.893.

Kínamarkaður hefur mikil áhrif

Þegar litið er til einstakra markaða þá hefur Kína verið mörgum framleiðendum erfiður í ár, í samanburði við árið í fyrra.

Hjá Audi vegur markaðurinn þyngst, en þar seldust 30,7% allra Audi bíla fyrstu átta mánuðina. Hjá Mercedes-Benz er hlutfallið 19,2%. BMW gefur ekki upp söluna í Kína eingöngu fyrir BMW merkið, heldur einnig MINI. Ef hlutfallið er vegið er það um 19%. Hjá Volvo er hlutfallið 16,5%.

Samdrátturinn í Kína var mestur hjá Jaguar Land Rover, eða 29% fyrstu átta mánuðina. Salan á Volvo í Kína hefur dregist saman um 4,1%, 5% hjá Lexus og 0,8% hjá Audi. Hjá BMW hefur salan aukist um 0,9% en um heil 27,2% hjá Mercedes-Benz.

Nánar er fjallað um sölu lúxusbíla í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Audi  • BMW  • Lexus  • Mercedes-Benz  • Jaguar Land Rover