*

Sport & peningar 4. júní 2015

Met slegið í tekjum enskra úrvalsdeildarliða

Tekjur knattspyrnuliðanna í ensku úrvalsdeildinni námu alls um 670 milljörðum króna á síðasta tímabili.

Samanlagðar tekjur knattspyrnuliða í ensku úrvalsdeildinni jukust um 29% á tímabilinu 2013-2014 og námu 3,3 milljörðum punda, andvirði um 670 milljarða króna. Kemur þetta fram í frétt BBC um skýrslu Deloitte um fjármál knattspyrnufélaga í Evrópu.

Rekstrarhagnaður úrvalsdeildarliðanna jókst um 649% á milli ára og nam 614 milljónum punda og hagnaður fyrir skatta nam 187 milljónum punda, en samkvæmt fréttinni hafa liðin sem heild ekki skilað hagnaði fyrir skatta frá árinu 1999.

Tekjur bresku úrvalsdeildarliðanna voru meiri en tekjur liða í efstu deildum Ítalíu og Spánar samanlagt og voru um einum milljarði punda meiri en tekjur liða í efstu deildinni í Þýskalandi.

Eins og svo oft áður voru tekjurnar mestar hjá Manchester United, eða um 433 milljónir punda, en voru lægstar hjá Cardiff City, eða 83 milljónir punda. Samanlagðar útsendingartekjur jukust um 48% á milli ára og tekjur af miðasölu, mat og drykk jukust um 5%. Nítján af tuttugu úrvalsdeildarliðum skiluðu rekstrarhagnaði og fjórtán lið skiluðu hagnaði fyrir skatta.

Stikkorð: Fótbolti  • Knattspyrna  • England