*

Menning & listir 1. mars 2014

Meta umfang tískugeirans

KPMG, Hönnunarmiðstöðin og Reykjavík Fashion Festival stefna að því að afla upplýsinga um tískuiðnaðinn hér á landi.

Stefnt er að því greina og meta umfang tískugeirans hér á landi og afla frekari upplýsinga um þann iðnað. KPMG, Hönnunarmiðstöð og Reykjavík Fashion munu vinna að þessu saman.

„Opinberar hagtölur ná illa utan um þessar stærðir og því vita stjórnvöld og aðrir býsna lítið um hvernig þetta er í raun og veru. Hugmynd okkar er að efna til samstarfs við þau fyrirtæki sem starfa í greininni og safna hjá þeim upplýsingum um rekstur, afkomu og fleiri þætti,“ segir Hlynur Sigurðsson, endurskoðandi hjá KPMG.

Niðurstöður í haust

Hlynur segir slíkar rannsóknir hafa verið unnar víða erlendis og þær hafi gagnast í stefnumörkun og lagasetningu fyrir stjórnvöld og aðra. „Okkar hugmynd er að hefja þessa vinnu nú í vor og kynna niðurstöður með myndarlegum hætti, til að mynda í haust, með einhvers konar ráðstefnu eða málþingi. Fyrir okkur skiptir það öllu máli til að ná til sem flestra í geiranum að rannsókn sem þessi sé eins víðtæk og vönduð og hægt er. Við bindum miklar vonir við samstarf við RFF og Hönnunarmiðstöð sem þekkja alla anga í þessum geira.“ 

Nánar má lesa um málið í Tísku, blaði sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .

Stikkorð: Tíska