*

Bílar 6. maí 2013

Metaðsókn á bílasýninguna Allt á hjólum

Blaðamaður Viðskiptablaðsins skoðaði nýjustu bílana á sýningu Bílgreinasambandsins um helgina.

Róbert Róbertsson

„Það er greinilega mikill áhugi meðal almennings á bílum og það er vonandi að Íslendingar fari nú að endurnýja bílaflotann sem er orðinn einn sá elsti í Evrópu,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandins í tilkynningu en sambandið stóð fyrir stórsýningu á bílum og tækjum undir heitinu Allt á hjólum í Fífunni um helgina. Metaðsókn var á bílasýninguna en rúmlega 20 þúsund manns gerðu sér ferð á sýninguna og skoðuðu það nýjasta sem í boði er á markaðnum. 

Á bílasýningunni var auk þess fjöldi nýrra bíla voru sérstaklega fluttir til landsins í tilefni dagsins. Alls voru um hundrað bílar og á fimmta tug ferðavagna sýndir á fjögur þúsund fermetrum.

Eins og sjá má á myndunum hér að neðan var mikið af spennandi og áhugaverðum á sýningunni enda sýndu þar öll bílaumboðin það nýjasta sem þau luma á.

Bílablaðamanni Viðskiptablaðsins þótti sérstaklega gaman að berja augum sportbílanna Porsche Cayman og 911, Toyota GT86 og Mercedes-Benz A-Class 250 í AMG útfærslu. Auk allra helstu bílaumboða landsins voru einnig með á sýningunni fyrirtæki sem bjóða vörur og þjónustu sem á einn eða annan hátt tengjast farartækjum. 

Hér má sjá nokkra af bílum og mótorhjólum sem Haraldur Guðjónsson, ljósmyndari Viðskiptablaðsins, tók þegar hann gekk um sýninguna.