*

Bílar 12. janúar 2016

Metár hjá Opel

Opel sýnir bestu sölutölur síðustu fjögurra ára, þrátt fyrir að bíllinn sé ekki lengur seldur í Rússlandi.

Frá höfuðstöðvum Opel í Rüsselheim í Þýskalandi berast þær fréttir að Opel sé að sýna bestu sölutölur fyrirtækisins síðustu fjögurra ára, þrátt fyrir brotthvarf bílamerkisins af Rússlandsmarkaði.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri hefur fyrirtækið afgreitt yfir 1,1 milljón bíla á síðasta ári. Viðbótin nemur 35.000 bílum og með þessu hefur fyrirtækið því aukið verulega við sig, jafnt í magni sem og markaðshlutdeild á árinu 2015. Markaðshlutdeildin stendur nú í 5,8% í Evrópu.

Aukningin er heilt yfir í öllum tegundum Opel, en sportjeppinn Opel Mokka sker sig úr með yfir 16% vöxt. Opel Corsa er með 6% bætingu frá fyrra ári.

Velgengni atvinnubílana frá Opel er einnig athyglisverð, en vöxturinn í þeim flokki er heil 24% miðað við 2014 og dreifist nokkuð jafnt á alla línuna; Vivaro, Movano og Combo. 

Stikkorð: Bílar  • Evrópa  • Volvo  • Söluaukning