*

Sport & peningar 17. júlí 2013

Methagnaður hjá bandarísku fótboltaliði

Ruðningsliðið Green Bay Packers, sem er í eigu aðdáenda, skilaði 6,6 milljarða króna hagnaði í fyrra.

Bandaríska ruðningsliðið Green Bay Packers skilaði 54,3 milljóna dala hagnaði í fyrra, sem samsvarar um 6,6 milljörðum króna. Tekjur liðsins námu 308 milljónum dala á árinu.

Þrátt fyrir að Packers njóti mikillar hylli, ekki aðeins í heimaríkinu Wisconsin heldur víðsvegar um Bandaríkin, kemur meirihluti tekna félagsins til vegna sjónvarpstekna og annarra tekjustrauma NFL deildarinnar sem dreift er jafnt á liðin í deildinni. Packers fengu um 179,9 milljónir í gegnum deildina en öfluðu sjálfir 128,1 milljón dala.

Þá hjálpaði það liðinu að launakostnaður liðsmanna dróst töluvert saman milli ára. Hann var 155 milljónir dala árið 2011 en var 136 milljónir dala í fyrra. Reyndar segir í frétt ESPN að inn í þá tölu vanti endurnýjunarbónusa sem leikstjórnandinn Aaron Rodgers og varnarkempan Clay Matthews fengu greidda að loknu reikningsárinu. Þessir bónusar munu því koma í ársreikninga liðsins fyrir þetta ár.

Green Bay Packers er í þeirri sérstöku aðstöðu að þurfa að opna bækur sínar ár hvert vegna þess að liðið er tæknilega hlutafélag í eigu aðdáenda. Nokkrum sinnum hafa hlutabréf verið seld til að afla félaginu fjár og aldrei er skortur á kaupendum. Hlutabréfin eru hins vegar ekki framseljanleg og aldrei er greiddur út arður. síðasta útgáfa hlutabréfa var um áramótin 2011 til 2012 þegar hlutabréf seldust fyrir einar 63 milljónir dala.

Stikkorð: NFL  • Green Bay Packers