*

Sport & peningar 20. apríl 2018

Mettekjur og methagnaður í ensku

Liðin í ensku úrvalsdeildinni voru samtals með 639 milljarða í tekjur og skiluðu 71 milljarði í hagnað.

Félagsliðin í ensku úrvalsdeildinni voru samanlagt með 4,5 milljarða breskra punda í tekjur á tímabilinu 2016-2017. Það samsvarar um 639 milljörðum króna miðað við gengi dagsins í dag en það eru hæstu tekjur sem félagsliðin hafa samtals haft frá upphafi. 

Þá skiluðu félögin methagnaði en samanlagt var hann um 500 milljónir punda fyrir skatta eða sem nemur um 71 milljarði króna. Það er töluverður viðsnúningur því árið áður var samanlögð rekstrarafkoma þeirra lítillega neikvæð. 

Í frétt BBC um málið segir að meginástæðan fyrir hækkun teknanna hafi verið nýr samningur úrvalsdeildarinnar um sýningarréttindi frá leikjum liðanna.

Sjónvarpsstöðvarnar SKY og BT greiddu samtals 5,13 milljarða punda fyrir sýningarrétt á leikjum deildarinnar í Bretlandi fyrir árin 2016-2019.