*

Bílar 12. júní 2020

MG nýtt bílamerki á Íslandi

Hið sögufræga bílamerki MG sem margir þekkja frá gamalli tíð hefur formlega innreið sína á íslenska bílamarkaðinn

Hið sögufræga bílamerki MG sem margir þekkja frá gamalli tíð hefur formlega innreið sína á íslenska bílamarkaðinn síðar í þessum mánuði þegar bílaumboðið BL kynnir hinn nýja framhjóladrifna og rafknúna sportjeppa MG ZS EV í sýningarsalnum við Sævarhöfða.

MG ZS EV er fimm manna framhjóladrifinn og ríkulega búinn sportjeppi sem fáanlegur verður til afhendingar strax í tveimur gerðarútfærslum; Comfort og Luxury. Ísland er eitt 9 Evrópulanda þar sem MG er nú fáanlegur. Rafbíllinn MG ZS EV er búinn vatnskældri og öflugri 44,5kWh rafhlöðu sem hægt er að hraðhlaða frá 0-80% á aðeins 40 mínútum. Drægi rafhlöðu sportjeppans er 263 kílómetrar samkvæmt WLTP og hentar bíllinn því jafnt til innanbæjarakstur sem ferðalaga utanbæjar.

MG ZS EV hefur þegar hlotið fullt hús öryggisstiga hjá Euro NCAP. Auk árekstravarnar býr sportjeppinn MG ZS EV yfir ýmsum öðrum öryggisbúnaði til aðstoðar ökumanni í umferðinni. Þar á meðal er öryggiskerfið MG Pilot L2+ sem sameinar t.d. virkni gagnvirka hraðastillisins (ACC), akreinavarans (LDW) og sjálfvirka neyðarhemilinn (AEB) sem ber m.a. kennsl á hjólandi og gangandi vegfarendur í umferðinni. Þá er MG ZS EV einnig búinn fjölvirku myndavélakerfi og ratsjá sem greinir mismunandi vegaðstæður af völdum veðurs og bregst við til að tryggja sem öruggastan akstur í umferðinni.

MG ZS EV Comfort og Luxury verða frumsýndir í sýningarsal BL við Sævarhöfða laugardaginn 27. júní milli kl. 12 og 16.