*

Sport & peningar 24. mars 2021

Miami Heat spili í rafmyntahöll

Rafmyntamiðlunin FTX er talin á barmi þess að tryggja sér nafnaréttinn á heimavelli NBA liðsins Miami Heat.

Rafmyntamiðlunin FTX er talin á barmi þess að tryggja sér nafnaréttinn á heimavelli NBA liðsins Miami Heat. Er talið að nafnaréttarsamningurinn sé virði um 135 milljóna dala, en borgaryfirvöld þurfa að gefa grænt ljós á samninginn til þess að han geti tekið gildi. Rafmyntamiðillinn Bitcoin.com greinir frá þessu.

Heimavöllur Miami Heat hefur borið nafnið American Airlines Arena í um tvo áratugi, en ef samningurinn nær fram að ganga mun nafn hallarinnar breytast í FTX Arena. 

Munu borgaryfirvöld, sem stýra nafnaréttarmálum hallarinnar, fá greidda árlega þóknun frá FTX. Ekki liggur þó ljóst fyrir hversu há sú greiðsla mun koma til með að vera, en blaðamaðurinn Joe Pompliano segir greiðsluna nema 7 milljónum dala á ári. Samkvæmt samningi milli borgarinnar og Miami Heat renna árlega 2 milljónir dala af nafnaréttargreiðslunni til liðsins en restin, 5 milljónir dala, mun þá renna í vasa borgarinnar. 

Stikkorð: Miami Heat  • FTX