*

Menning & listir 4. maí 2012

Michelsen selur Obama-úr

Armbandsúr eins og það sem Barack Obama Bandaríkjaforseti ber er nú til sölu hér á landi. Leyniþjónustumaður gaf honum úrið.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Frank Michelsen úrsmiður og sonur hans Magnús fengu um síðustu helgi úr frá bandaríska úrsmiðnum Jorg Gray. Fyrirtækið framleiðir m.a. úr fyrir bandaríska heimavarnarráðuneytið, leyniþjónustuna CIA og Skotland Yard. Barack Obama hefur verið með úr frá Jorg Gray á vinstri handlegg sínum frá því hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar árið 2009.

„Eftir því sem mér er sagt, þá var Obama ekki með úr þegar hann tók við embætti. Einn leyniþjónustumanna tók af sér úrið og gaf honum. Forsetinn hefur notað sama úrið síðan,“ segir úrsmiðurinn Frank og bendir á að úrið sé stílhreint, fallegt og sterkt.  

Úrin koma í nokkrum verðflokkum, frá 45 þúsund krónum og upp í 110 þúsund krónur. Frank bendir á að úr sömu gerðar og Obama ber er jafnframt það ódýrasta. Úrin hjá Michelsen koma bæði með áletruðu nafni Barack Obama og án hennar.

Úrsmiðurinn Jorg Gray er kornungt fyrirtæki. Það var stofnað árið 1998 og framleiddi úr fyrir aðra úraframleiðendur. Það framleiddi sömuleiðis úr fyrir stofnanir á borð við heimavarnarráðuneytið bandaríska og lögregluyfirvöld. Úrið vakti athygli manna eftir að Obama setti það á sig þegar hann sór embættiseið fyrir þremur árum og hefur áhuginn smitað út frá sér víða um heim. 

Hér að neðan má sjá myndband af óvæntri heimsókn Barack Obama á Bagram-herstöðina í Afganistan á miðvikudag þar sem hann kynnti samkomulag bandarískra stjórnvalda við Hamid Karzai, forseta Afganistan. Í samkomulaginu felst stuðningur Bandaríkjamanna við Afgana þegar herlið NATO yfirgefur landið eftir tvö ár. Áhugafólk um forsetann og armbandsúr geta spólað áfram um 1:40 sekúndur en þar beinir myndatökumaður linsu myndvélarinnar beint að úrinu á vinstri handlegg forsetans. 

Bakhliðin á úrinu frá Jorg Gray eins og því sem Barack Obama notar. 

Stikkorð: Barack Obama  • Jorg Gray  • Frank Michelsen