
Microsoft hefur gefið út sýnishorn af komandi stýrikerfinu sínu, Windows 8. Ein helsta áherslan við hönnun komandi stýrikerfisins er að það á að fleyta Microsoft inn í tíma snertiskjáa og snjallsíma. Nýtt svokallað ,,Metro“ viðmót sem finna má í Windows farsímastýrikerfinu hefur verið bætt við í Windows 8.
Þrjú ár eru síðan Windows 7 stýrikerfið kom út en það er almennt talið mun heppnaðra en fyrirrennari sinn, Windows Vista.
Windows stýrikerfið, sem er enn markaðsráðandi stýrikerfi á tölvumarkaðnum, hefur átt á brattann að sækja þegar kemur að farsímastýrikerfum. Helstu keppinautarnir, iOS, farsímastýrikerfi Apple og Android eru með yfirburðastöðu á þeim markaði. Enn á þó eftir að koma í ljós hvort Windows eigi eftir að vegna betur á farsímamarkaðnum nú þegar Nokia hefur gefið stýrikerfið sitt, Symbian, upp á bátinn og tekið upp Windows stýrikerfið í staðinn.
Hér má niðurhala sýnishorninu af Windows 8.