
Tæknirisinn Microsoft mun kynna til sögunnar nýja spjaldtölvu í næstu viku, að því er segir í frétt á vefsíðunni cnet.com. Ef satt reynist þá er Microsoft með þessu útspili að fara út fyrir venjulegt viðskiptamódel sitt, en Microsoft hefur hingað til einbeitt sér að hugbúnaðarframleiðslu en látið öðrum eftir framleiðslu á vélbúnaðinum.
Í fréttinni segir að með þessu móti geti Microsoft haft meira að segja um hönnun tölvunnar og mögulega bætt gæðastjórnun. Líklegt er að þessi ákvörðun Microsoft geti farið illa í vélbúnaðarframleiðendur eins og HP, Dell, Asus, Toshiba og Nokia, sem gætu lent í samkeppni við fyrirtæki sem hingað til hefur verið samstarfsaðili þeirra.