*

Hitt og þetta 14. nóvember 2005

Microsoft þrýstir á Bandaríkin vegna samkeppnisyfirvalda ESB

Hugbúnaðarrisinn Micorsoft hefur hafið herferð til að sannfæra bandarísk stjórnvöld til að leggja fyrirtækinu lið í langri baráttu sinni við samkeppnisyfirvöld Evrópusambandsins (ESB), segir í frétt Financial Times.

Evrópusambandið komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að Microsoft hefði brotið samkeppnislög með því að misnota stærð sína og markaðsaðstöðu til að selja stýrikerfi sitt. Microsoft var gert að greiða 497 milljónir evra í sektir og áfrýjaði félagið niðurstöðunni. Búist er við dómsniðurstöðu vegna áfrýjunarinnar á næsta ári.

Í frétt Financial Times segir að Micorsoft hafi fundað með aðilum úr dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og óskað eftir stuðningi stjórnvalda. Þar segir einnig að fyrirtækið hafi haft samband við önnur bandarísk stórfyrirtæki, þar á meðal lyfjafyrirtæki.

Í gögnum sem Financial Times hefur komist yfir kemur fram að Microsoft telur að neikvæð niðurstaða fyrir félagið geti haft keðjuverkandi áhrif á viðskiptahagsmuni bandarískra fyrirtækja í Evrópu.

Talsmaður Micorsoft segir í samtali við Financial Times: "Á síðustu árum hefur Evrópusambandið og einstaka ríkistjórnir innan þess gripið inn í samkeppnismál í Bandaríkjunum. Það er eðlilegt að Bandaríkin komi sínum skoðunum á framfæri í Evrópu á sama hátt."