*

Ferðalög & útivist 30. mars 2012

Miðaldakastali til sölu

Einn af elstu köstulum Skotlands er falur fyrir á annan milljarð. Einn íbúanna barðist við hlið uppreisnarmannsins William Wallace.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Þeir sem áhuga hafa á því að festa fjármagn sitt í grjóti og steinsteypu ættu að beina sjónum sínum til bæjarins Daly í Ayrskíri í Skotlandi. Þar í landi er nýkominn á söluskrá kastali Blair-fjölskyldunnar. Á skrá fasteignasölu einnar segir að eigendurnir horfi á eftir eigninni enda búnir að leggja mikið á sig við endurbætur á honum. Þeir eru sagðir skoða öll tilboð yfir 8 milljónum punda, jafnvirði rúmra 1,6 milljarða íslenskra króna.

Kastalinn á sér langa og merkilega sögu og hefur í einni eða annarri mynd verið í eigu sömu fjölskyldunnar í 900 ár og með elstu húsum í Skotlandi sem enn er búið í. Fyrsti hluti hans eins og hann lítur út í dag var reistur árið 1668 og aðrir síðar. Síðasti hluti hússins reis fyrir rúmri öld síðan eða árið 1893. Á landinu sem fylgir kastalanum eru fjórir sveitabæir og sjö smærri íbúðahús.  

Þá skemmir ekki fyrir að stuttan tíma tekur að aka til Glasgow. Þangað eru aðeins 40 kílómetrar.

Ekkert tengd Tony Blair

Samkvæmt því sem greint er frá á sölusíðunni Country Life, sem heldur utan um dýrari fasteignir til sölu í Bretlandi, þá getur Blair-fjölskyldan rakið ættir sínar aftur til ársins 1165 þegar Jean nokkrum Francois var veittur titill sem barón. Það var svo sonur hans William sem tók upp nafnið Blair. Tengdasonur hins upphaflega baróns barðist m.a. með skoska uppreisnarmanninum Willam Wallace, sem kvikmyndin Braveheart með Mel Gibson í aðalhlutverki var byggð á. Konungssinnar handtóku Blair og var hann tekinn af lífi árið 1226. Afkomendur Blair-anna hafa tengst hernaði svo öldum skipti en einn þeirra var sem dæmi kapteinn í breska sjóhernum á tímum Viktoríu Bretadrottningar. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, mun þó ekkert tengdur kastalanum.

Höll með landi

Kastalinn stendur á gríðarstóru landflæmi, einum 260 ekrum og þúsund ekrum af ræktuðu landi. Stofur eru fimm talsins og svefnherbergin 18, einu fleira en baðherbergin. 

Hér má sjá nokkrar myndir af kastalanum. Þær eru fengnar af vefsíðu fasteignasölunnar. 

 

 

Stikkorð: Skotland  • Blair-kastali  • kastali  • William Wallace