*

Sport & peningar 10. júlí 2015

Miðar óvart seldir á landsleik Íslands og Kasakstan

Miðasala á leik Íslands og Kasakstan fór óvart í gang á Midi.is. KSÍ segir einungis 86 miða hafa selst.

Miðasala á landsleik Íslands og Kasakstan í knattspyrnu, sem fram fer í undankeppni EM 2016, fór óvart í gang á miðasölusíðunni Midi.is í dag. Fótbolti.net greindi fyrst frá þessum fréttum og skömmu síðar var lokað fyrir miðasöluna sem átti ekki að hefjast fyrr en í ágúst.

Um mistök var að ræða hjá Miða.is og hefur síðunni borist ótal símtöl að sögn þjónustufulltrúa sem Viðskiptablaðið ræddi við fyrir skömmu.

Knattspyrnusamband Íslands sendi frá sér yfirlýsingu vegna miðasölunnar. Þar sagði að miðasala á leikinn, sem fram fer þann 6. september næstkomandi, muni hefjast fyrir alvöru í byrjun ágúst og verður hún auglýst á heimasíðu sambandsins. Vegna mistakanna í dag hafi 85 miðar selst á leikinn.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem vandamál koma upp vegna samstarfs KSÍ og Miða.is. Frægt var þegar miðar á stærsta leik Íslandssögunnar, umspilsleikinn gegn Króatíu fyrir HM 2014, voru settir á sölu í skjóli nætur.