*

Sport & peningar 22. október 2013

Miðasala á Ísland-Króatía hefst í vikunni

Miðasala á umspilsleikina gegn Króatíu hefst að öllum líkindum þegar nær dregur helgi.

Miðasala á leikinn Ísland-Króatía hefst líklegast þegar líður nær helginni. Þetta segir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, í samtali við VB.is. Ekki er hægt að hefja miðasölu fyrr en KSÍ hefur fengið staðfestingu á leiktíma. 

Þórir býst við því að staðfestingin berist síðar í dag. En á morgun og hinn verður Miði.is, sem sér um miðasölu á leikinn, með miðasölu á aðra tvo stóra viðburði. Þórir segir að af tæknilegum ástæðum hafi Miði.is mælst til þess að miðar á leikinn verði ekki seldir á sama tíma. 

Þórir segir ekki liggja fyrir hve margir miðar verði seldir á leikinn, ekki sé víst hversu stóran hluta mótherjarnir vilji taka. Miðaverðið verður svipað og á leikjum fyrr á árinu, dýrustu miðar á 3500 og ódýrustu á 1500.

Leikurinn gegn Króötum fer fram þann 15. nóvember.