*

Sport & peningar 6. júní 2019

„Miðnæturgolf hvergi betra en á Sigló“

Síðastliðið sumar var opnaður nýr og glæsilegur golfvöllur í Hólsdal í botni Siglufjarðar og er völlurinn sá nýjasti hér á landi.

Sveinn Ólafur Melsted

Síðastliðið sumar var opnaður nýr og glæsilegur níu holu golfvöllur í Hólsdal í botni Siglufjarðar og er völlurinn sá nýjasti hér á landi. Völlurinn er hluti af Rauðku samstæðunni, sem er í eigu fjárfestisins Róberts Guðfinnssonar. Róbert hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu í bænum og opnað Sigló hótel ásamt veitingastöðunum Sunnu, Hannes Boy og Rauðku. Auk þess starfrækir hann líftæknifyrirtækið Genís á Siglufirði.

Golfvöllurinn er byggður á fyrrverandi malarnámusvæði. Golfvallahönnuðurinn og arkitektinn Edwin Roald Rögnvaldsson sá um hönnun vallarins. Á heimasíðu golfvallarins segir að ekki hafi aðeins verið horft til þess að endurheimta fegurð landsins við gerð vallarins, heldur einnig að endurvekja bleikjugöngu upp Hólsá og Leyningsá. Malarnám á svæðinu hafi raskað því svo fiskgengd var orðin lítil sem engin. Vonir standi til þess að árnar tvær sem liðast um völlinn nái fyrra horfi. Við hönnunina hafi einnig verið litið til þess að undirlendi við Siglufjörð sé takmarkað. Því skipti samvinna við alla hagsmunaaðila sköpum við gerð vallarins. Göngu- og reiðstígar liggi um völlinn auk þess sem hann sé hluti af skógræktarsvæði bæjarbúa.

Kemur vel undan vetri

Jóhann Már Sigurbjörnsson, formaður Golfklúbbs Siglufjarðar, segir að fyrsta starfssumar golfvallarins hafi gengið mjög vel. „Það eina sem var að stríða okkur var rigningin, eins og annars staðar á landinu, en annars erum við mjög ánægð með fyrsta sumarið á vellinum."

Að sögn Jóhanns kemur völlurinn vel undan vetri. „Völlurinn er miklu betri en við bjuggumst við og erum við að opna völlinn fyrr í ár. Við sjáum líka að völlurinn er þéttari í sér og það mun þéttast næstu árin og verða betri og betri."

Jóhann segir að ferðamenn hafi verið duglegir að sækja golfvöllinn heim, jafnt innlendir sem erlendir.

„Við fengum nokkra erlenda ferðahópa til okkar síðasta sumar og þeir hópar voru rosalega ánægðir með völlinn. Þeim fannst frábært að geta spilað miðnæturgolf. Landinn var duglegur að koma til okkar og fengum við góð viðbrögð frá honum. Einhverjir báru völlinn saman við velli erlendis, völlurinn okkar gefur þeim ekkert eftir. Fólk er almennt mjög ánægt með völlinn og miða við að þetta var fyrsta árið okkar í fyrra þá lofar völlurinn mjög góðu fyrir næstu árin."

Auðvelt að ganga völlinn

Óhætt er að segja að uppbygging nýs golfvallar á Siglufirði hafi verið metnaðarfullt verkefni. Veturnir eru ansi langir hér á landi og eru tilheyrandi snjóþyngsli á Norðurlandi algengur fylgifiskur vetrarkuldans. Jóhann tekur undir að það sé stór áskorun að koma golfvellinum í æskilegt stand.

„Þessi völlur er byggður upp frá grunni svo það er ansi stór áskorun að koma honum í stand og þá aðallega halda flötunum góðum. Svo er einn góður kostur við völlinn okkar. Þótt hann sé svona norðarlega þá það myndast lítil klakamyndun á flötum hjá okkur."

Jóhann nefnir hið svokallaða miðnæturgolf sem einn af helstu kostum vallarins.

„Það er auðvelt að ganga þennan völl og þú ert ekki kasta miklum tíma í leit að golfkúlunni þinni. Svo er auðvitað miðnæturgolfið, það gerist hvergi betra en á Sigló. Spila golf í faðmi fjallanna við rennandi árniðinn, lognið og sólina. Er hægt að hafa það betra?" spyr hann.

Jóhann er bjartsýnn á að aðsókn kylfinga á golfvöllinn á Siglufirði í sumar verði með besta móti.

„Aðsóknin var góð í fyrra en við teljum að hún verði enn betri þetta sumarið. Golfskálinn er tilbúinn til notkunar, sem er stór kostur fyrir sumarið. Það eru fleiri sem vita núna af vellinum okkar en í fyrra og auk þess erum við með flotta mótaskrá fyrir sumarið, meðal annars nokkur opin mót fyrir gesti."

Nánar er fjallað um málið í Golf, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Golf  • Siglufjörður