*

Sport & peningar 30. júlí 2012

Miðum bætt við á Ólympíuleikana

Töluvert hefur verið fjallað um fjölda auðra sæta í áhorfendastúkum á ÓL. Oft eru það íþróttasamböndin sem ekki nýta sína miða.

3000 miðar á ýmsa viðburði ólympíuleikanna voru boðnir til sölu á heimasíðu Ólympíuleikanna í gærkvöldi. Töluverð umræða hefur verið í fjölmiðlum um allan heim um þann fjölda auðra sæta sem sjónvarpsáhorfendur sjá glöggt í útsendingu frá ýmsum viðburðum.

Forsvarsmenn leikanna segja ástæðuna þó ekki vera að ekki hafi verið uppselt á viðburðina. Hins vegar sé raunin sú að íþróttasambönd þátttökulanda hafi fengið ákveðinn fjölda miða sem þeim var frjálst að úthluta eða selja innan sinna landa. Fjöldamörg dæmi séu hins vegar um að þessi sæti séu ekki nýtt. Þetta eru oftar en ekki sæti á bestu stöðum í áhorfendastúkunum.

Starfsmenn á Ólympíuleikunum hafa nú unnið hörðum höndum að því að hafa samband við fulltrúa þessara íþróttasambanda til að kanna hvort til standi að nota miðana. Ef ekki verða þeir boðnir almenningi til sölu.

Það er því ljóst að hafi einhver misst af miða á draumaviðburðinn er um að gera að fylgjast vel með þróun mála á vefsvæði ólympíuleikanna.

Stikkorð: Ólympíuleikar