*

Bílar 20. júlí 2015

Mikið lagt í nýjan Mondeo

Ford Mondeo í langbaksútfærslu með tveggja lítra og 180 hestafla dísilvél í reynsluakstri.

Guðjón Guðmundsson

Fimmta kynslóð Ford Mondeo var kynnt á Íslandi fyrir skemmstu talsvert mikið breytt, stærri og vandaðri að innan. Mondeo hefur verið til allt frá árinu 1992 og hefur auðvitað breyst mikið í gegnum tíðina, en ávallt hefur hann þótt ágætur akstursbíll með góða jarðtengingu.

Við prófuðum á dögunum langbaksgerðina í Titanium útfærslu með 2ja lítra, 180 hestafla dísilvél og sex þrepa sjálfskiptingu.

Mondeo er laglega hannaður bíll. Allar útlitslínur eru teygðar sem gefa honum rennilegt og dálítið sportlegt yfirbragð um leið og hann býr yfir einhverri klassískri fágun. Framendinn er sérstaklega svipsterkur og formið minnir pínulítið á Aston Martin db9. Kannski ekki óvænt líkindi því Ford átti þennan fornfræga breska bílaframleiðanda um skeið.

Fágaður að innan

Mondeo er stór fjölskyldubíll með góðu plássi fyrir fimm manns og farangur. Það er reyndar dálítið sérstakt að langbaksgerðin er lítið eitt styttri, 4.867 mm, en 5 dyra gerðin, sem er 4.871 mm. Hún er sömuleið­ is með minna farangursrými, eða 525 lítra á móti 550 lítrum.

Bíllinn er líka fágaður að innan. Efnisval og uppsetning stjórntækja er eins og best gerist. Sýningarbíllinn sem var prófaður var með svokölluðum þægindapakka sem inniheldur aukalega bílastæðavara, leiðsögukerfi með 8“ snertiskjá, lyklalaust aðgengi, LED aðalljós ásamt öðru. Með þessum búnaði hækkar grunnverðið úr 5.850.000 kr. í 6.678.000 kr. Í snertiskjánum fyrir miðju mælaborðinu er bakkskynjari og stýringar fyrir hljómtæki, síma, loftkælingu og fleiri aðgerðir.

Mondeo er efnismikill bíll. Það finnst á öllu, ekki síst þegar hurðir lokast með þungum dynk. Það er því ekki dósahljóðinu fyrir að fara. Það sem hægt er að setja út á hönnun bílsins er útsýni út úr honum. Þykkir A-póstarnir og lágstæður baksýnisspegillinn trufluðu dá­ lítið og bakkskynjari er eiginlega nauðsynlegur búnaður í Mondeo því afturrúðan er hlutfallslega lítil út af sportlegri nálgun í hönnun á yfirbyggingunni.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Ford  • Ford Mondeo