*

Jólin 13. nóvember 2016

Mikið úrval af íslenskum jólabjór

Sala á jólabjór í ÁTVR hefst formlega þann 15. nóvember næstkomandi og bíða eflaust margir eftir því að úrvalið fari að streyma um hillurnar.

Pétur Gunnarsson

Sumir hverjir hugsa um góðan mat í samhengi við jólin, aðrir hugsa um fallegar samverustundir með sínum nánustu, en enn aðrir hugsa um jólabjórinn sem bíður þeirra í hrönnum á helstu börum bæjarins og sömuleiðis í ÁTVR, vínbúð ríkisins. Sala á jólabjór í verslunum ÁTVR hefst þriðjudaginn 15. nóvember.

Í heildina eru 34 tegundir af jólabjór í boði á hillum ÁTVR, en það er talsverð fjölgun í úrvali miðað við fyrri ár. Hér tekur Viðskiptablaðið fyrir saman yfirlit yfir jólabjóra íslenskra brugghúsa sem í boði verða. Þó ber að taka fram að þetta er langt frá því að vera endanleg upptalning á öllum þeim góðu bjórum sem eru í boði, þar sem mikil gróska er í bruggun hér á landi um þessar mundir.

Ölvisholt

Meðal þeirra íslensku brugghúsa sem búa til bjór fyrir jólin er Ölvisholt, sem hefur markað sér sess sem eitt af bestu brugghúsum landsins. Jólabjórinn þeirra í fyrra bar einfaldlega nafnið: „Jólabjór“ en á þessu ári verður breyting á. Jólabjór Ölvisholts ber hið glettna nafn, „Heims um bjór“. „Helstu breytingarnar eru þær að bruggmeistarinn tók alveg út krydd sem hefur verið í honum og breytti gerinu í belgískt ger sem ætti að koma með negul. Ölið er maltríkt með karamellukeim og gerjað með þessu belgísku geri sem gefur skemmtilegt kryddbragð.

Að lokum er bætt við slettu af töfrum jólanna til að fullkomna ölið. Alkóhólmagnið er 5% og hentar hann vel með íslenska jólamatnum, hamborgarhryggnum, hangikjötinu og rjúpunn,“ segir í lýsingu Ölvisholts á bjórnum.

Einnig verður Ölvisholt með bjórinn Tuttugasta og fjórða, þessi jólin, en sá er Barley Wine af breskum aðalsættum, með alkóhólmagnið 10%. Bjórinn hefur flókinn maltkeim með miklu bragði, þar sem karamellukeimur og þurrkaðir ávextir eru ekki langt undan.

Borg brugghús

Meðal jólabjóra frá hinu frómaða Borg brugghúsi er Askasleikir, sem er Amber Ale. Bjórinn er apríkósugott og sítrusvænt rauðöl, sem er bruggað með engilsaxnesku ölgeri og ögn af aski til að ná fram almennilegri jólasveinastemmingu. Alkóhólmagn bjórsins er 5,8%. Einnig býður Borg brugghús upp á bjórinn Pottaskefil, sem er brúnöl, ríkulega humlað með breskum Fuggles humlum sem mynda grösuga tóna í bland við ilm af viði og blómum.

Umfjöllun um fleiri bjóra og brugghús má finna í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Jólahandbókinni. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Jólabjór  • brugghús  • úrval  • íslenskt