*

Bílar 4. nóvember 2016

Mikil bið eftir forskráningu bíla

Á fyrstu 10 mánuðum ársins hafa selst um 17 þúsund nýir fólksbílar, sem er 34% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Bílasala hefur verið mjög blómleg á árinu. Alls hafa hafa selst um 16.700 nýir fólksbílar á fyrstu 10 mánuðum ársins sem er 34% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, er ánægður með þessa auknu bílasölu en segir hins vegar vandamál hversu langan tíma það taki að forskrá nýja bíla hjá Samgöngustofu.

„Þetta er jákvæð og eðlileg þróun í bílasölu. Aukningin er aðallega í sölu til einstaklinga og fyrirtækja, en bílaleigur halda svipuðu hlutfalli og í fyrra, eða um 40% af nýskráðum fólksbílum.

Það hefur verið mikil vöntun á að yngja upp bílaflotann hvað varðar einstaklinga og fyrirtæki en við erum að sjá talsverða aukningu í bílakaupum hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum í ár. Sveiflan er ekki á neinum ógnarhraða en þetta er í rétta átt og nokkuð þægilegt ef svo má segja.

Markaðurinn er í góðu jafnvægi og horfurnar góðar eins og staðan er í dag. Fólk virðist eiga meira fjármagn nú til að nota til bílakaupa en undanfarin ár. Lánshlutfall er umtalsvert lægra nú í ár en á árunum fyrir efnahagshrunið,” segir Özur.

„Sá flöskuháls sem við eigum við að glíma í dag er hversu langan tíma það tekur hjá Samgöngustofu að forskrá nýja bíla. Biðtími eftir forskráningu á nýjum bílum er að lágmarki tvær vikur og kemur sér afar illa fyrir bæði kaupendur nýrra bíla og umboðin.

Nánar má lesa um málið í bílablaði sem fylgdi Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Nýskráningar  • nýir bílar