*

Jólin 25. nóvember 2017

Mikil súkkulaðimenning hér á landi

Henry Þór Reynisson bakari segir mörg handtök á bak við hvern konfektmola.

Kolbrún P. Helgadóttir

Henry Þór Reynisson bakari lét áralangan draum sinn um að hanna og framleiða konfekt verða að veruleika.Henry Þór Reynisson bakari er með yfir 20 ára reynslu og menntun í faginu. Henrý lærði bakaraiðnina í Menntaskólanum í Kópavogi og Aalborg tekniske skole. Námssamninginn tók hann hjá gæðaverslun– inni Harrods í London þar sem áhersla var lögð á súkkulaðigerð.

Brennandi áhugi á súkkulaðilistinni

Undir leiðsögn súkkulaðilistamanna hjá Harrods öðlaðist Henry dýrmæta reynslu í konfektgerð, súkkulaðiskrautsgerð og eftirréttum á þeim 3 árum sem hann starfaði þar.Brennandi áhugi Henrys á súkkulaðilistinni leiddi hann einnig á nokkur námskeið í Sviss í sykur- og súkkulaðigerð. Að eigin sögn er það súkkulaðifíkillinn sem býr innra með honum sem kveikir þennan mikla áhuga. „Ég var búinn að ganga með þessa hugmynd í nokkur ár og ákvað að slá til og prófa,“ segir Henry spurður um hvað hvað hafi orðið til að hann hannaði og framleiddi sína eigin konfektlínu undir nafninu Henry Thor.

Ekki ósvipað og að mála

Konfektið hefur vakið verðskuldaða athygli bæði fyrir útlit og bragð en Henry segist leggja mikið upp aðalatriðunum, það er að segja góðu bragði og fallegu útliti molanna en sjálfum þykir honum einstaklega gaman að leika sér með liti og skapa. „Helst vildi ég hafa útlit molanna eftir tilfinningunni sem fylgir því að skapa þá hverju sinni, án þess að vera með fast útlit á hverri tegund en þetta er ekkert ósvipað og að mála listaverk. Það er hægt að gera svo ótrú- lega margt þegar maður er með ríkt hugmyndaflug en það getur líka orðið ruglingslegt fyrir viðskiptavininn.“

Nýir molar árlega

Henry byrjaði með fimm mola en er nú kominn með sjö mola í línuna. Hann stefnir á að koma með einn til tvo nýja mola á ári og að allir finni mola við sitt hæfi. „Einnig verð ég með nýjan Valentínusar- og konudagsmola, sem og bleikan mola í október á hverju ári.“ Súkkulaðiunnendur geta því glaðst við hin ýmsu tilefni en einnig er von á handgerðum páskaeggjum frá Henry á næsta ári. „Eins og er spila ég þetta af fingrum fram og geri það sem mér finnst gott og flott og er í takt við það sem viðskiptavinunum hefur líkað hingað til.“Það er óhætt að segja að það séu ófá handtökin á bak við hvern mola en Henry leggur mikla áherslu á gæði þegar kemur að súkkulaðigerðinni, hvort sem um ræðir hráefni, útlit eða pakkningar. „Það er vissulega mikil vinna í kringum þetta en ég geri allar fyllingar sjálfur, og ferlið við hvern mola er langt.“

Hannaði pakkningarnar sjálfur

Pakkningarnar utan um konfektið gleðja óneitanlega augað sem gerir það að verkum að þær eru einstaklega fallegar til þess að gefa. „Mér finnst það vera stór þáttur ì konfektgerð að pakkningin sé vegleg og smekkleg. Fólk er að borga meira fyrir handgert konfekt og í flestum tilfellum eru þetta gjafir. Það var stærsti höfuðverkurinn að finna réttu pakkningarnar en ég endaði á að hanna þær sjálfur og láta framleiða þær fyrir mig.“

Súkkulaði vinsæl gjöf

Þar sem Henry er tiltölulega nýr í súkkulaðibransanum segist hann ekki þekkja það hvort að gjafir eins og súkkulaðigjafir hafi færst í aukana. „Ég þekki svo sem ekki hvort það sé einhver aukning á því að fyrirtæki eða einstaklingar séu að gefa meira konfekt núna en áður en ég finn að það er að myndast mikil súkkulaðimenning rétt eins og hefur verið að gerast með bjórinn og mikill áhugi fyrir því að gefa súkkulaði að gjöf. Einnig eru æ fleiri að gera eitthvað skemmtilegt úr súkkulaði. Verslunin Vínberið á Laugarveginum heldur til að mynda úti glæsilegri súkkulaðiverslun þar sem starfsfólkið er duglegt að kynna hvað Íslendingar eru að bralla með súkkulaði ásamt fleiru.“ En þar má meðal annars nálgast molana frá Henry Thor sem og hjá Reyni bakara á Dalvegi 4. Spurður að lokum hver sé uppáhalds molinn hans stendur ekki á svari; „Uppáhalds-molinn minn er Yuzu-molinn, en vinsælustu molarnir er án efa saltkaramellumolinn og appels- ínu nougat-molinn.“