*

Bílar 10. nóvember 2017

Mikil uppbygging hjá Kvartmíluklúbbnum

Klúbburinn var stofnaður 6. júlí 1975 en félögum fækkaði og vinsældir dvínuðu þar til fyrir nokkrum árum.

Síðustu ár hefur verið gríðarlega mikil uppbygging á akstursíþróttasvæði klúbbsins og hann styrkst og eflst samhliða því. Búið er að gera svæðið fjölbreyttara og enn frekari uppbygging er fram undan í Kapelluhrauni í Hafnarfirði.

Strax sama ár og klúbburinn var stofnaður fór hann að halda bílasýningar og sandspyrnukeppnir. Sandspyrnurnar voru haldnar að Hrauni í Ölfusi og mættu þar allir helstu spyrnubílar landsins ásamt miklum fjölda áhorfenda. Bílasýningarnar voru haldnar í Laugardalshöll og Húsgagnahöllinni. Þá voru einnig haldnar bíósýningar í Laugarásbíói til að fjármagna starfsemi klúbbsins. Það var mikill áhugi á Kvartmíluklúbbnum á þessum fyrstu árum hans og mikil og skemmtileg stemmning í kringum hann. Það voru um 800 manns í klúbbnum til að byrja með,“ segir Ingólfur Arnarson, formaður Kvartmíluklúbbsins.

Brautin byggð og keppni hefst

Fjármagn sem safnaðist með starfsemi klúbbsins fyrstu árin var notað til að byggja kvartmílubraut fyrir félagsmenn. Brautin var byggð í Kapelluhrauni í Hafnarfirði árið 1978 en áður hafði klúbburinn fengið lóð undir keppnisbraut á Geithálsi en þar reyndist of mikil jarðvegsvinna fyrir á því svæði og var þá farið í að semja við Skógrækt Ríkisins um brautarsvæði í Kapelluhrauninu. Fyrsta keppnin var haldin þar ári síðar. ,,Ég byrjaði að keppa í kvartmílunni 1981 og gekk í klúbbinn þá 18 ára gamall. Þetta var gríðarlega skemmtilegt og mikið fjör. Brautin var að mestu óbreytt til aldamótanna 2000 en þá var malbikuð leið frá endamarki til baka og steypt viðgerðarsvæði við rásmark brautarinnar. Aksturssvæðið var þá gert öruggara og öll aðstaða varð betri en áður hafði verið,“ segir Ingólfur enn fremur. Á síðustu þremur árum hefur verið gríðarlega mikil uppbygging á akstursíþróttasvæði Kvartmíluklúbbsins. Búið er að breikka og lengja kvartmílubrautina en sú vinna var unnin í áföngum síðustu ár og lauk þeirri vinnu á árinu 2015. Hafist var handa við lagningu hringakstursbrautar fyrir rúmlega þremur árum og hún tekin í notkun á árinu 2016. 

Nánar er fjallað um málið í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.