*

Menning & listir 8. apríl 2016

Mikill heiður að vinna með Björk

Saga Sig hefur unnið að stórum auglýsingaherferðum og með þekktum tónlistarmönnum.

Eydís Eyland

Saga Sigurðardóttir er ungur ljósmyndari og leikstjóri sem er að gera það gott í tískuljósmyndaheiminum. Hún hefur hlotið mikið lof fyrir verk sín og hefur hún unnið að stórum auglýsingaherferðum með Nike, Topshop og þekktum tónlistarmönnum á borð við Björk Guðmundsdóttur og M.I.A.

Hvert er þitt uppáhalds verkefni hingað til?

„Ég á nokkur, þau eru mismunandi. Ég vann á síðasta ári með Björk Guðmundsdóttur í myndatöku fyrir Sunday Times. Það var mikill heiður að fá þetta verkefni og vinna með Björk, hún er einlæg og mikill innblástur fyrir mig sem listakonu. Hún sýndi mér mikið traust og einlægt hreint út sagt finnst mér hún ótrúleg mannvera. Hún er stórkostleg á öllum sviðum.“

„Ég er stoltust af sýningunni minni hjá myndavélaframleiðandanum Leica en Leica er Rolls Roys í myndavélaheiminum og allir gamlir meistarar á myndavélar notuðu slíkar vélar. Þeir báðu mig um að vera með í ljósmyndasýningu hjá þeim þar sem Leica var að opna nýjar höfuðstöðvar í Þýskalandi. Ég og níu aðrir ljósmyndarar sýndu á þessari sýningu. Við fengum öll gefins Leicu-myndavélar frá þeim með áletruðum nöfnunum okkar í vélina. Það var mikill heiður að fá að taka þátt í þessari sýningu. Uppáhaldsverkefni mín eru líka þau verkefni þar sem ég fæ að ferðast og svo finnst mér skemmtilegt að geta tekið myndir í íslenskri náttúru.“

Nánar er rætt við Sögu Sig í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Björk Guðmundsdóttir  • Leica  • Saga Sig