*

Bílar 29. apríl 2016

Mikill uppgangur í bílgreininni

Sala á nýjum fólksbílum jókst um 57% frá 1. janúar til 31. mars miðað við sama tíma á síðastliðnu ári.

Róbert Róbertsson

Nýskráðir fólksbílar á þessum fyrsta fjórð­ ungi ársins voru 3.605 samanborið við 2.289 bíla á sama tímabili árið 2015. Er það aukning um 1.316 bíla. Nýskráðir bílaleigubílar frá áramótum til loka mars eru 1.488 eða 41% af heildinni. Í mars voru nýskráningar 37% fleiri en í fyrra.

,,Það er mikill uppgangur í bílgreininni það sem af er ári og aukningin í nýskráningum fólksbíla það sem af er þessu ári miðað við sama tíma í ári er 57%. Allar ytri aðstæður eru góðar og almenn bjartsýni virðist ríkja. Það er góður gangur á bílasölum, verkstæðum og varahlutasölum,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

„Sala á nýjum bílum er góð og hafa bæði einstaklingar og fyrirtæki farið vel af stað með endurnýjun á bílum. Einnig er mikil aukning í nýskráningum bílaleigubíla og hlutfall þeirra hátt í heildarskráningum,“ segir Özur.

Mikilvægt að bæta við samgöngumannvirkjum

Góð mæting var á aðalfund Bílgreinasambandsins, sem haldinn var á Grand Hótel á dögunum. Gísli Hauksson, forstjóri Gamma, hélt fyrirlestur og fjallaði m.a. um fjárfestingarþörf í samgöngumannvirkjum. Gísli sagði meðal annars að mjög mikið vantaði upp á fjárfestingar í samgöngumannvirkjum á Íslandi.

Gísli sagði enn fremur að miklir fjármunir töpuðust árlega vegna mikils ágangs á þau samgöngumannvirki sem fyrir eru vegna aukningar í umferð og það væri mjög mikilvægt að endurnýja og bæta við nýjum samgöngumannvirkjum. Gísli sagði það afar brýnt að ráðast í gerð Sundabrautar og tvöföldunar í Hvalfjarðargöngunum.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, hélt erindi um þjónustu og framtíðarhorfur bílaleigugeirans, en sú grein hefur mikið með umhverfi bílgreinarinnar að gera í nútíð og framtíð.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Bílasala  • Aukning  • Iðngrein