*

Viðtal, Hitt og þetta 11. mars 2017

Mikilvægt að gera mistök

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir var alin upp við það að menntun væri máttur en hún telur einnig mikilvægt að læra af mistökunum.

Kolbrún P. Helgadóttir

Hrafnhildur hefur lagt mikið upp úr því að mennta sig á lífsleiðinni enda alin upp við þá trú að hún gæti allt og að menntun væri máttur. „Ég hef bætt við mig reglulega á ferlinum til þess að halda áfram að efla mig. Svo finnst mér bara svo gaman að læra nýja hluti.“ Að því sögðu er óætt að fullyrða að menntun hennar hennar sé orðin ansi víðtæk og spannar reynsla hennar í stjórnunar - markaðs- og kynningarmálum ein fimmtán ár. Hún starfaði sem verkefnastjóri MBA-náms í Háskólanum Reykjavík frá 2007 eins og fyrr segir en áður var hún kynningarstjóri Námsgagnastofnunar. Hún er með PLD gráðu frá IESE Business School í Barcelona, Útskrifaður markþjálfi úr HR, B.A. gráðu í almannatengslum frá Auckland University of Technology í Nýja Sjálandi og IAA gráðu í markaðs- og auglýsingafræðum frá IACT í Kuala Lumpur.

Síðasta nám Hrafnhildur bætti við sig var PLD gráða frá einum virtasta viðskiptaháskóla heims. „Það var sannkallaður draumur og í raun punkturinn yfir i-ið að fara og nema við IESE Business School í Barcelona. Þarna starfaði ég með stjórnendum út um allan heim með gríðarlega reynslu og kom svo sannarlega reynslunni ríkari heim.“

Flottar fyrirmyndir

Aðspurð um sínar fyrirmyndir í uppvextinum, nefnir hún móður sína þar fyrsta. „Ég á einstaka mömmu sem hefur verið mín helsta fyrirmynd í lífinu, hún var það í uppvextinum og er það enn í dag. En ef ég á að hugsa lengra þá er ekki hægt annað en að nefna Vigdísi Finnbogadóttur, hún er fyrirmynd okkar allra á svo margan hátt. Ég held að maður hafi ekki endilega gert sér grein fyrir því hvað það var mikilvægt að alast upp með hana fyrir augunum. Þegar ég varð eldri þá skildi ég hversu mikilvægt það var. Hún braut ekki aðeins blað í sögunni - heldur var hún forseti sem við gátum verið svo stolt af á margan hátt. Sjálf viðurkennir Hrafnhildur að hún leggi afar mikið upp úr því að vera dætrum sínum þremur, Ísabellu, Dögun og Aþenu góð fyrirmynd. „Ég græddi líka dásamleg stór börn með Bubba þau Hörð, Grétu og Brynjar og það skiptir mig líka máli að vera þeim góð fyrirmynd.

Hrafnhildur segir þennan metnað sinn vissulega blandast við starfið en að það skipti hana gríðarlegu máli að dætur hennar njóti sömu réttinda og bekkjabræður þeirra í framtíðinni og fái sömu laun.

„Draumurinn er að þegar stelpurnar mínar komi út á vinnumarkaðinn þá verðum við Íslendingar búnir að brjóta niður þessa ósýnilega veggi og glerþök sem við erum að kljást við akkúrat núna.“

Aðspurð nánar út í heimilishaldið og uppeldið á segir Hrafnhildur systurnar þrjár allar skemmtilega ólíkar svo að það virki ekki endilega það sama á þær allar í uppeldinu. „Það sem við leggjum hinsvegar hvað mest uppúr á okkar heimili er að það má gera mistök, og eiginlega vil ég að þær geri mistök svo að þær geti lært að takast á við þau og læri af þeim.“ Hrafnhildur segir að mikilvægast sé að fá þær til að vera óhræddar við að prófa sig áfram. „Við förum reglulega yfir hvað er það besta sem getur gerst og svo það versta – sem er oftar en ekki ekkert svo hræðilegt. Ég á mér einmitt einn uppáhalds frasa þessu tengdu; „Mistökin gera okkur mannleg.“ Hann heyrðum við í dásamlegri teiknimynd sem við horfðum á saman fjölskyldan og heitir Aftur heim, þannig að í raun er hægt að læra af öllu, meira að segja föstudags bíókvöldunum í Kjósinni en þau eru fastur punktur í tilveru okkar. Annað sem að mér finnst gríðarlega mikilvægt í uppeldinu er að einblína ekki á vandamál, heldur ávallt á lausnirna.
 

Viðtalið við Hrafnhildi má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.