*

Tölvur & tækni 3. júní 2014

Miklar breytingar hjá Apple

Nú verður hægt að stjórna græjum heimilisins með Apple tækjum.

Ný stýrikerfi eru væntanleg frá tæknirisanum Apple, bæði fyrir símtæki og tölvur. Ýmsar nýjungar voru kynntar á þróunarráðstefnu fyrirtækisins í San Fransisco í gær en NY Times fjallaði ítarlega um ráðstefnuna.

Stýrikerfið Yosemite er talið bæta ýmsum nýjungum við Mac tölvur. Nú verður hægt að flakka á milli og samræma notkun á mismunandi Apple tækjum. Þannig er hægt að hefja ákveðnar aðgerðir í einu tæki og færa sig svo yfir í annað án nokkurra vandræða. Einnig er ráðgert að með iCloud Drive geti notendur geymt skjöl á netinu og nálgast þau hvar sem er, líkt og tíðkast með Dropboxi.

Með IOS 8, nýju stýrikerfi fyrir Iphone og Ipad, er einnig ýmislegt sem vakti athygli á ráðstefnunni. Ýmsar breytingar eru til dæmis gerðar á smáskilaboðakerfinu, sem munu auðvelda notendum að skrifa og svara skilaboðum hratt og örugglega. Tvö forrit sem fylgja IOS 8 stóðu upp úr og vöktu mesta athygli en það eru HealthKit og HomeKit.

Með Healthkit verður ýmsum heilsufarsupplýsingum um notandann safnað, í tengslum við hreyfingu, hjartslátt og svefn. Einnig verður auðvelt að tengja saman önnur heilsufarsforrit við Healthkit. Homekit gerir notendum hins vegar kleift að stjórna ýmsum tækjum heimilisins. Þannig verður hægt að dimma ljósin, læsa dyrum eða stjórna hitastiginu með Apple tækjunum. 

Nýju stýrikerfin munu verða tilbúin til notkunar í haust. Ýmsar spár höfðu flogið um hvaða vörur og nýjungar Apple myndi kynna á ráðstefnunni og í því samhengi hafði verið talað um tímamótavörur, svo sem úr og jafnvel nýjan Iphone. Ekkert slíkt var uppi á teningnum í gær, en talið er að slíkar vörur séu væntanlegar síðar á árinu. 

Stikkorð: iPad  • Apple  • iPhone