*

Sport & peningar 24. maí 2014

Milljarðar í húfi fyrir nýliðana

Besti leikmaðurinn í nýliðavali NFL-deildarinnar var ekki miðpunktur fjölmiðlaathygli í aðdraganda valsins.

Í nýliðavali NFL-deildarinnar í bandarískum fótbolta fyrr í mánuðinum stóðu tveir einstaklingar framar öðrum í fjölmiðlaumfjöllun og segja má að áhuginn hafi svolítið ráðist af því hvort fólk hafi áhuga á íþróttinni eða ekki. Forfallnir NFLaðdáendur töluðu vart um annað en það í hvaða liði leikstjórnandinn frá Texas, Johnny Manziel, myndi enda. Þeir sem lítinn eða engan áhuga hafa á NFL höfðu hins vegar mestan áhuga á varnarmanninum Michael Sam, sem er fyrsti yfirlýsti samkynhneigði maðurinn sem reynir að spila í NFL.

Enginn hélt því hins vegar fram að Manziel, sem ber hið fáránlega viðurnefni „Johnny Football“, væri besti sóknarmaðurinn í nýliðahópnum eða að Sam væri besti varnarmaðurinn. Almenn samstaða var um að besti maður nýliðavalsins væri varnartröllið frá S-Karólínu, Jadeveon Clowney, enda var hann valinn fyrstur alla í nýliðavalinu af Houston Texans. Manziel var ekki valinn fyrr en þegar 21 annar maður hafði verið valinn. Útsendingin varð afkáralegri með hverju valinu og sjónvarpsmennirnir ítrekuðu í hvert sinn sem nýr maður var valinn að Manziel væri enn á bekknum.

Svo fór að Manziel var þó valinn og það í fyrstu umferð, en mikla athygli vakti að Cleveland Browns hafði valið annan leikmann fyrr í umferðinni. Rostinn í Manziel var því lækkaður töluvert þennan dag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: NFL