*

Tölvur & tækni 14. maí 2012

Milljón manns prófar netleikinn The Secret World

Straumur átti 5,5% í norska leikjafyrirtækinu Funcom á árunum 2006 til 2009. Spennandi leikur er væntanlegur í sumar.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Ein milljón netverja voru búnir að skrá sig í prufuútgáfu af fjölspilunartölvuleiknum The Secret World. Þetta er langt umfram væntingar, samkvæmt fregnum af málinu. Prufan var keyrð af stað á föstudag í síðustu viku. Miklar væntingar eru bornar til leiksins sem norska leikjafyrirtækið Funcom hefur verið að þróa. 

Leikurinn hefur verið í smíðum hjá Funcom um nokkurt skeið en forsvarsmenn fyrirtækisins boðuðu komu hans árið 2007. Leikurinn er frábrugðinn hefðbundnum tölvuleikjum að því leytinu til að spilarar keppast ekki um að klára eitt borð til að færast yfir á annað heldur eiga þeir að vinna í því að bæta hæfni sína. 

Eins og leikasérfræðingar fjalla um leikinn þá er hann samblanda af þjóðsögum, goðsögnum og slúðri. Þeir sem spila leikinn ganga í hlutverk ofurhetja sem berjast í svo að segja eilífu stríði á milli góðra aflra og vonda og koma þar fyrir bæði skrímsli, vampírur og aðrir skrattakollar. Baráttan á sér stað bæði í þekktum heimsborgum á borð við London, New York og Seúl í Kóreu auk goðsagnakenndra staða í hliðarheimi. 

Gert er ráð fyrir að opnað verði fyrir almenna spilun leiksins í sumar.

Íslendingar áttu hlut í Funcom

Straumur - Burðarás fjárfestingarbanki keypti 5,5% hlut í Funcom í mars árið 2006 í lokuðu hlutafjárútboði. Hluturinn var á sínum tíma metinn á tæpar 800 milljónir króna. Gengi hluta Funcom, sem skráð er í norsku kauphöllina í Osló, stóð á þessum tíma í kringum 31,5 norskum krónum á hlut. Það fór hæst í 53 norskar krónur á hlut í þessum mánuði fyrir fjórum árum, í maí árið 2008. Eftir það lækkaði það snögglega samhliða því sem vandræðin á alþjóðlegum fjármálamörkuðum jukust og var komið niður í 3 krónur um áramótin sama ár.

Gengið hefur sveiflast talsvert síðan þetta var og stendur það nú í um 19,5 norskum krónum á hlut. 

Samkvæmt upplýsingum frá ALMC, þrotabúi Straums, seldi félagið alla hluti sína í Funcom á árunum 2008 til 2009 og á nú enga  hluti í félaginu.

Hér að neðan má skoða myndband með senum úr leiknum ásamt viðtölum við stjórnendur Funcom.

Stikkorð: Funcom  • The Secret World