*

Sport & peningar 10. júlí 2011

Milljónir í boði fyrir mestu afrekin

Hópur Íslendinga tekur þátt á heimsleikunum í Crossfit. Reebok gerir auglýsingar- og styrktarsamning við Annie Mist Þórisdóttur

Íþróttavöruframleiðandinn Reebok hefur á undanförnum mánuðum tekið mikið forskot á Crossfit íþróttina umfram aðra íþróttavöruframleiðendur og er nú í fyrsta sinn helsti styrktaraðili heimsleikanna í Crossfit sem fram fara um næstu mánaðamót.

Ólíkt því sem áður var eru nú töluverðar fjárhæðir í boði fyrir sigur í einstaklingskeppni karla og kvenna. Sigurvegarinn í einstaklingskeppninni fær í sínar hendur um 250 þús. Bandaríkjadali (um 28,5 m.kr.), fyrir annað sætið eru veittir 50 þús. dalir og fyrir þriðja sætið 25 þús. dalir. Vinningshafar í liðakeppni fá einnig peningaverðlaun.

Þá hefur Reebok einnig gert styrktar- og auglýsingasamninga við marga af þekktustu afreksmönnum Crossfit íþróttarinnar. Þar á meðal er hin íslenska Annie Mist Þórisdóttir og um þessar mundir skreyta myndir af henni stærsta flugvöllinn í Los Angeles, LAX.

Annie Mist mun nú í þriðja sinn taka þátt í heimsleikunum en í fyrra lenti hún í 2. sæti og tryggði sér þannig þátttökurétt í ár. Þá sigraði Annie Mist einnig á Evrópuleikunum í Crossfit sem fram fóru í byrjun júní sl. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Annie Mist að í ár sé stefnt á sigur. „Ég hef aldrei verið í betra formi og nú á ekkert að koma á óvart í keppninni. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef ég verð ekki meðal þriggja efstu,“ segir Annie Mist.


Annie Mist Þórisdóttir sigraði á Evrópuleikunum í Crossfit í júní 2011. (Mynd: Daði Hrafn Sveinbjarnarson)

Nánar er fjallað um viðskiptahliðina á heimsleikunum í Crossfit og nýlegan samning Reebok við Annie Mist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.