*

Sport & peningar 19. mars 2016

Milljónir til skiptanna í NFL

Samningar fjölda leikmanna í NFL-deildinni losnuðu fyrir skömmu. Liðin bítast nú um bestu bitana, en staða þeirra er afar misjöfn.

Þann 9. mars síðastliðinn hófst formlega nýtt tímabil í bandarísku fótboltadeildinni NFL, en á þeim degi runnu út samningar liða við leikmenn sem giltu út leikárið 2015. Það þýðir að fjöldi leikmanna varð þá frjáls (innan ákveðinna marka) til að semja á ný við sitt gamla lið eða semja við nýtt lið.

Í NFL-deildinni eru strangar reglur um það hvað lið mega verja háum fjárhæðum í launagreiðslur á ári hverju. Er þetta gert til að jafna stöðu liðanna og gera þeim liðum auðveldara að keppa sem eru staðsett í fámennari borgum. Á tímabilinu 2016 mega liðin almennt ekki eyða meiru en 155 milljónum dala í launagreiðslur og er það hækkun um 12 milljónir dala frá árinu á undan. Eins og með allt annað í NFL-deildinni eru þó undantekningar þar frá. Þannig mega lið flytja ónotaðar launagreiðslur frá árinu á undan yfir á næsta ár. Þannig munu Jacksonville Jaguars geta varið allt að 189,7 milljónum dala í launagreiðslur á þessu ári, sem er verulega yfir meðaltalinu.

Almennt er talað um að sjaldan hafi launaþakið hækkað jafnmikið og í ár og því hafi þeir leikmenn í raun dottið í lukkupottinn sem hafi lausa samninga nú. Þeir muni geta fengið mun hagstæðari samninga en þeir hefðu fengið í fyrra, einfaldlega vegna þess að meira fé er til skiptanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: NFL