*

Bílar 31. ágúst 2017

Mini rafbíll kynntur í Frankfurt

Nýr Mini rafbíll mun líta dagsins ljós á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði. Bíllinn, sem er enn á hugmyndastigi, er væntanlegur á markað árið 2019.

Rafútgáfan af Mini fær nokkuð breytt útlit miðað við hefðbundinn Mini og þá sérstaklega grillið á bílnum og LED ljósin að framan og aftan. LED ljósin að aftan eru sérlega eftirtektarverð þar sem þau sýna hálfan breska fánann. Skemmtileg nýjung hjá breska bílaframleiðandanum.

Bíllinn er líka talsvert breyttur að innan miðað við hefðbundinn Mini og búið að gera hann tæknivæddari. 3D lúkk verður áberandi í innarýminu. Þetta er samt ekki fyrsti rafbíllin frá Mini því bílaframleiðandinn kom með rafbíl á markað árið 2008 sem bar heitið Mini E. Samstarf Mini og BMW bar þar ávöxt en mikið úr Mini E var notað í BMW i3 rafbílinn.

Það verður að teljast líklegt að Mini rafbíllinn fái allmikla athygli á sviðinu í Frankfurt enda þykja Mini bílarnir alltaf flottir og klassískir í hönnun.