*

Ferðalög & útivist 13. mars 2013

Minnsta svítan á flottasta hóteli heims 170 fermetrar

Burj Al Arab in Dubai hótelið í Dúbai trónir á toppnum þegar kemur að lúxus og vellystingum. Eða það finnst hótelstjóranum alla vega.

Þrátt fyrir gríðarlega fjölgun lúxushótela víðs vegar um Sameinuðu arabísku furstadæmin er Burj Al Arab í Dúbai  enn talið flottasta hótel í heimi, að sögn hótelstjórans Henrich Morio. 

 Í viðtali á CNN segir Henrich að meginmarkmið hótelsins sé að láta auðugasta fólki heims líða eins og það sé að fá eitthvað alveg sérstakt þegar það gistir á hótelinu. Og þá er þjónustan númer eitt, tvö og þrjú.

Henrich, sem er 53 ára, hefur unnið í hótelbransanum í 25 ár og segir að lúxus sé skilgreindur út frá hlutfalli starfsfólks og gesta. Og þar hefur hótelið vinninginn en þar eru átta gestir á móti einum starfsmanni.

Dæmi um greiðvikni starfsfólks á hótelinu er til dæmis þjónninn sem gekk um í skóm af einum gesti í heilan dag. Gesturinn hafði nefnilega kvartað yfir því að skórnir væru of þröngir og það þyrfti að ganga þá til.

Annar gestur hafði samband við hótelið fyrir komu sína og sagði farir sínar ekki sléttar því enga Louis Vuitton strigaskó væru að finna í Bretlandi, þaðan sem hann var að koma. Þegar örvæntingafulli gesturinn mætti á hótelið var starfsfólkið búið að fara um allt í Dúbai og finna úrval af Louis Vuitton strigaskóm sem gesturinn gat valið úr.

Fyrir utan greiðvikni starfsfólksins er hótelið líka einstakt, að sögn Morio, en það er á eyju sem var byggð sérstaklega fyrir hótelið. Hótelið er í laginu eins og stórt segl í miðju hafinu. Lofthæðin í móttökunni er um 180 metrar, jafn há og Frelsissyttan. Í hönnuninni innanhús er notað alvöru gull og herbergin eru þau stærstu í heimi.

Minnsta svítan er „aðeins” 170 fermetrar sem er algeng stærð á stærstu svítunum á hótelum í sama gæðaflokki. Allar svíturnar eru á tveimur hæðum með útsýni yfir hafið, fataherbergi, ipad úr gulli, tölvu og einkaþjóni. Nótt i konunglegu svítunni kostar tæpar 2,4 milljónir króna.

Þegar hótelið opnaði árið 1999 var það stærsta hótel í heimi en það kostaði rúmlega 82 milljarða króna að byggja það.

 

 

 

 

 

Stikkorð: Hótel  • Dubai  • Lúxus  • Burj Al Arab