*

Veiði 4. ágúst 2014

Minnsti afli í íslenskum laxveiðiám frá árinu 2007

Gera má ráð fyrir að um mánaðamót hafi um þúsund færri laxar verið komnir á land en á sama tíma árið 2012.

Á miðvikudag var heildarafli laxa í 25 viðmiðunarám Landssambands veiðifélaga, sem skoða má á vefnum angling.is, orðinn 9.367 laxar. Vikuveiðin náði 2.408 fiskum, sem að sögn Þorsteins Þorsteinssonar frá Skálpastöðum, sem safnar tölunum saman, er mesti vikuafli þessa sumars enn sem komið er. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Þorsteinn segir að ef litið sé aftur til laxveiðinnar sumarið 2012, sem hafi verið frekar slakt ár, þá var aflinn í viðmiðunarám Landssambands veiðifélaga kominn í 11.137 laxa tveimur dögum síðar um sumarið. Gera megi ráð fyrir að veiðin sé núna um þúsund löxum minni en þá. Segist hann nú líta oft aftur til sumarsins 2007, sem sé eina sumarið síðan byrjað var að halda utan um þessar tölulegu upplýsingar á þennan hátt sem veiðin var enn minni en nú í sumar.

„Nú er júlí að enda og ljóst orðið að ekki verður nein metveiði í laxánum þetta árið. Þetta er fremur lítill afli og sá minnsti síðan árið 2007, en þá hafði verið landað 8.744 löxum í þessum 25 ám 1. ágúst,“ segir Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið.

Stikkorð: Stangveiði