*

Bílar 5. febrúar 2017

Minnsti meðlimur Q-fjölskyldunnar

Þýski lúxusbílaframleiðandinn Audi kynnti nú í byrjun ársins nýjasta fjölskyldumeðliminn Audi Q2.

Róbert Róbertsson

Audi verður seint sakað um að standa sig ekki í hönnunarvinnu bíla sinna. Bílaframleiðandinn hefur undanfarin ár komið fram með mjög fallega og vel hannaða bíla þar sem mikið er lagt í fegurðina bæði að innan og utan. Sömu sögu er að segja með Q2 sem er með línurnar í fínu lagi.

Sportjeppinn netti hefur nú þegar fengið virt hönnunarverðlaun í Automotive Brand Contest í Þýskalandi. Hönnun bílsins fell í kramið þar á bæ og dómnefndin veitti Q2 verðlaunin „Best of the best“ sem er sannarlega fín byrjun fyrir bílinn.

Ögrandi og skarpar línur

Q2 er með svolítið ögrandi svip að framan þar sem áberandi grillið, sem situr ofarlega, og flott LED ljósin koma flott út. Línurnar eru nokkuð skarpar. Lágt þakið vekur athygli, en það tengist aftari hurðarstöfunum í hvassri línu. Þessi skörpu skil undirstrika sportlegan karakter Audi Q2. Að aftan er langt þakvindskeið sem er töff sem og svunta sem ber sama útlit og undirvagnshlífin. Háa axlarlínan er áberandi á hliðunum og sömuleiðis íhvolfu fletirnir í hurðunum. Ættarsvipurinn er heilt yfir augljós.

Einfalt en flott en innanrými

Að innan er Q2 byggður samkvæmt nýjustu hönnunarlínu Audi. Það er frekar einföld en flott hönnun á innanrýminu. Ekta Audi sem sagt. MMI skjárinn er staðalbúnaður, staðsettur ofarlega á mælaborðinu. Stærð hans veltur á upplýsinga- og afþreyingarkerfinu sem er notað. Eiginleikum hans er stjórnað með snúningstakka og tveimur tökkum á miðstokknum. Aksturshjálparkerfi fyrir Q2 eru þau sömu og í stærsta jeppanum Q7.

Innanrýmið er þokkalegt sérstaklega fram í og aftur í er ágætt pláss fyrir tvo fullorðna en þrengir að ef sá þriðji bætist þar í hópinn. Sætin eru góð og maður situr ágætlega hátt í þessum netta sportjeppa. Farangursrýmið er sæmilegt en ekkert meira.

Bensínvélin stendur fyrir sínu

Reynsluakstursbíllinn var með 1,4 lítra TFSI bensínvélinni sem skilar 150 hestöflum og togið er 250 NM. Hröðunin úr kyrrstöðu í hundraðið er 8,5 sekúndur. Þetta er ágætis afl fyrir ekki stærri bíl og raunar alveg nóg fyrir flesta nema þá allra hörðustu sem vilja fara hraðar yfir. En þessi bensínvél stendur vel fyrir sínu.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Audi  • bílar  • Q2