*

Sport & peningar 20. ágúst 2016

Mismunun á Ólympíuleikunum

Afar mismunandi er hvort íþróttamenn mega skarta merkjum frá fyrirtækjum sem styrkt hafa þá með fjárframlögum.

Bjarni Ólafsson

Þeir sem fylgst hafa náið með Ólympíuleikunum í Ríó hafa e.t.v. tekið eftir því að bandaríski sundmaðurinn Michael Phelps syndir með sundhettu sem er merkt með mjög áberandi hætti. Á hettunni eru stafirnir MP – sem standa fyrir Michael Phelps – og er hettan hluti af línu sundfatnaðar sem framleidd er af fyrirtækinu Aqua Sphere.

Það sem er merkilegt við þetta er að íþróttamenn í mörgum öðrum íþróttagreinum mega ekki klæðast merkjafatnaði að vild.
Eitthvað virðist þetta vera mismunandi eftir löndum, en í reglum bandarísku ólympíunefndarinnar eru ströng ákvæði um það hvað fyrirtæki, sem ekki teljast til opinberra styrktaraðila Ólympíuleikanna, mega gera í sinni markaðssetningu. Þau mega ekki minnast á Ólympíuleikana meðan á þeim stendur og ekki heldur níu daga fyrir opnun leikanna og þrjá daga eftir að þeim lýkur. Fyrirtæki eins og Under Armour, sem meðal annars styrkir Phelps og aðra íþróttamenn, en er ekki opinber styrktaraðili leikanna sjálfra, mega á þessu tímabili ekki nefna leikana á nafn í markaðsefni sínu eða á samfélagsmiðlum.

Under Armour fann leið framhjá banninu með því að sýna auglýsingar þar sem Phelps er í aðalhlutverki, en þar sem Ólympíuleikarnir sjálfir eru hvergi nefndir.

Ósætti meðal minni framleiðenda

Fyrir íþróttamennina sjálfra eru reglurnar aðeins öðruvísi. Þeir mega ekki nefna óopinbera styrktaraðila á nafn, t.d. á samfélagsmiðlum, en sumir þeirra mega þó klæðast fatnaði frá öðrum en opinberum styrktaraðilum leikanna. Svo er farið með sundmenn. Golfarar mega þetta einnig nema þegar ákveðið fyrirtæki er sérstakur styrktaraðili ákveðins landsliðs eins og er í tilviki írska landsliðsins og fyrirtækisins New Balance. Bandarískir frjálsíþróttamenn mega þetta hins vegar ekki vegna þess að íþróttavöruframleiðandinn Nike er með sérsamning við bandaríska liðið um að útvega þeim búninga. Þetta hefur skiljanlega farið öfugt ofan í marga smærri íþróttavöruframleiðendur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.