*

Bílar 25. október 2017

Mitsubishi fagnar aldarafmæli

Í tilefni 100 ára afmælis Mitsubishi býður Hekla til veislu á kjördag, en innflutningur frá fyrirtækinu hófst árið 1973.

Japanski bílaframleiðandinn Mitsubishi fagnar 100 ára afmæli um þessar munir og af því tilefni ætlar Hekla að bjóða til veislu nk. laugardag 28. október frá 12 til 16.

Mitsubishi Motors var stofnað í Japan árið 1917 og það ár kom Mitsubishi Model A á markað en hann var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn í Japan og lagði grunninn að farsæld næstu 100 ára. Það má með sanni segja að aldarlöng saga Mitsubishi sé saga nýsköpunar. 

Í fimmtíu ár hefur fyrirtækið unnið að þróun rafbíla og Mitsubishi var fyrsti bílaframleiðandinn til að fjöldaframleiða þá. Rannsóknar- og þróunarvinnan hófst árið 1966 og leiddi af sér rafbílinn Mitsubishi i-MiEV sem kom á fyrirtækjamarkað í Japan árið 2009 og á almennan markað ári síðar.

Þremur árum síðar var Outlander PHEV, sem gengur fyrir bæði rafmagni og bensíni, frumsýndur en hann var fyrsti tengitvinnbíllinn í jeppaútfærslu. Íslendingar kynntust Mitsubishi þegar innflutningur hófst árið 1973 og síðan þá hafa bílar á borð við smábílinn Mitsubishi Colt, keppnisjeppann Mitsubishi Pajero og fólksbílana Mitsubishi Lancer og Galant gert garðinn frægan.

Mitsubishi Outlander PHEV er mest seldi tengitvinnbíllinn á Íslandi, bæði í ár og 2016. Þannig hafa 390 Mitsubishi Outlander PHEV selst það sem af er árs og Sport útfærslan seldist hreinlega upp. Í staðinn hafa bæst við tvær útfærslur af þessum umhverfismilda tengiltvinnbíl; Outlander PHEV Invite og Invite +.

Stikkorð: Hekla  • Mitsubishi