*

Bílar 16. júlí 2014

Mitsubishi kynnir nýja tengiltvinnbifreið

Mitsubishi Outlander PHEV sameinar kosti rafmagnsbíls og fullvaxins fjórhjóladrifbíls.

Róbert Róbertsson

Mitsubishi Outlander PHEV er nýkominn til landsins en um er að ræða svonefnda tengiltvinnbifreið (plug-in-hybrid), sem sameinar kosti rafmagnsbíls fyrir sparneytinn og umhverfisvænan akstur, og fullvaxins fjórhjóladrifsbíls. Mitsubishi Outlander PHEV getur ekið á rafmagni eingöngu, með engum útblæstri, allt að 52 km við bestu aðstæður. Eyðsla fyrstu 100 km með fullhlaðna rafhlöðu getur orðið allt niður í 1,9 lítrar með koltvísýringsútblæstri 44 g/km.

Bíllinn er fyrst og fremst knúinn með rafdrifi frá stórri 300V 12KW lithium-ion rafhlöðu og ekur allt að 52 km á 100% endurnýjanlegri raforku frá tveimur rafvélum. Þannig notar bíllinn ekkert innflutt eldsneyti og losar engin kolefni út í andrúmsloftið. Rafmagnsvélarnar eru staðsettar við fram- og afturöxla bílsins og gefa honum fjórhjólaafl en á sama tíma hljóðlátan og aflmikinn akstur, sérstaklega hvað varðar ræsingu og hröðun. Hámarkshraði á rafdrifi er 120 km/klst.

Mitsubishi Outlander PHEV skiptir yfir í tvinnrafdrif (Series Hybrid-stilling) þegar bensínvélin hleður rafhlöðuna. Við þörf fyrir meiri orku, t.d. við snögga hröðun eða akstur upp brekku, getur bensínvélin einnig knúið framöxulinn samhliða rafvélunum. Loks getur Mitsubishi Outlander PHEV skipt yfir á tvinnbensíndrif (Parallel Hybrid-stilling) sem knýr bílinn á miklum hraða, t.d. í þjóðvegaakstri, eða við mikil vélarafköst, með aðstoð frá rafmótorum þegar þörf er á aukaafli. Skiptingar milli rafvélanna og bensínvélarinnar eru sjálfvirkar, en á skjá í mælaborði bílsins getur ökumaður fylgst með því hvaða vél er í gangi. Mitsubishi Outlander PHEV er afar athyglisverður bíll og er hann til sölu hjá Heklu, umboðsaðila Mitsubishi á Íslandi.