*

Sport & peningar 22. mars 2011

Móðurfélag Manchester United tapaði 20 milljörðum

Félag Glazer-fjölskyldunnar sem á Manchester United tapaði 20 milljörðum króna á síðasta ári.

Tap Red Football Joint Venture, félags í eigu Glazer-fjölskyldunnar og móðurfélag Manchester United, nam 108,9 milljónum punda á síðasta almanaksári. Það eru um 20 milljarðar króna á núverandi gengi. Uppgjörið nær til júlí 2010 og skýrist tap meðal annars af kostnaði við skuldabréfaútboð sem ráðist var í til að endurfjármagna fyrri skuldir félagsins.

Hagnaður af sölu leikmanna dróst saman frá fyrra ári, en þá seldi klúbburinn Cristiano Ronaldo. Fyrir leikmanninn fékk United 80 milljónir punda um sumarið 2009.

Í frétt BBC um ársreikninginn segir að tap á árinu megi meðal annars rekja til 30,2 milljóna punda vaxtagreiðslna af lánum sem nú hafa verið endurgreidd.