*

Veiði 28. desember 2018

Laxveiðin 2018 — samantekt

Samantekt á veiði í 50 laxveiðiám á Íslandi — miðað við veiði á stöng var Urriðafoss með flesta laxa eða 330.

Trausti Hafliðason

Laxveiðin síðasta sumar var sú lakasta í fjögur ár. Flestir laxar veiddust í Ytri-Rangá en veiði á stöng var mest í Urriðafossi í Þjórsá. Þegar veiði á stöng í 50 ám víðs vegar um land er skoðuð kemur í ljós að hún dalaði um ríflega 3% á milli ára.

Eins og margir laxveiðimenn vita kemur lokaskýrsla Veiðimálastofnunar um laxveiðina sumarið 2018 ekki út fyrr en í júní á næsta ári. Líkt og undanfarin ár tekur Viðskiptablaðið smá forskot á sæluna og rýnir í veiðitölur á vefsíðu Landssambands veiðifélaga (LV), angling.is.

Viðskiptablaðið hefur fengið upplýsingar um lokatölur í 50 laxveiðiám og reiknaða veiði á stöng en sá mælikvarði gefur nokkuð góða mynd af veiði í ám. Veiði á stöng er líka besti mælikvarðinn til þess að bera saman laxveiðiár. Fjöldi stanga í ám getur verið misjafn milli ára en einnig eru þónokkur dæmi um að veitt sé mismargar stangir í ám yfir sumartímann. Ágætt dæmi um það eru Elliðaárnar, en þar er ýmist veitt á fjórar eða sex stangir á veiðitímabilinu. Viðskiptablaðið hefur reynt eftir bestu getu að taka tillit til þessara þátta.

Samdráttur á milli ára

Þó að laxveiðin síðasta sumar hafi verið sú lakasta í fjögur ár þá var hún mjög svipuð og sumarið 2017. Að meðaltali veiddust 124 laxar á stöng sumarið 2018 samanborið við 128 sumarið 2017. Hafa ber í huga að í fyrra dróst veiðin saman um 17% samanborið við sumarið 2016. Sumarið 2016 veiddust 154 laxar á stöng að meðaltali. Viðskiptablaðið hóf að taka saman tölur um veiði á stöng árið 2012. Á þeim tíma sem liðinn er stendur árið 2015 upp úr. Þá veiddust að meðaltali 208 laxar á stöng í viðmiðunarám Landssambands veiðifélaga.

330 laxar á stöng

Veiði við Urriðafoss í Þjórsá var fantagóð síðasta sumar. Alls veiddust 1.320 laxar á svæðinu á fjórar stangir, sem þýðir að 330 laxar veiddust á hverja stöng að meðaltali. Stangaveiði við Urriðafoss hófst fyrst í fyrra en þá veiddust 755 laxar á tvær stangir eða 378 laxar á stöng. Veiði á stöng dróst því saman um 13% á milli ára. Miðfjarðará er í öðru sæti en alls veiddust 302 laxar á stöng á ánni síðasta sumar. Veiðin í Miðfjarðará hefur verið mögnuð síðustu ár. Í fyrra trónaði hún á toppnum með 418 laxa á stöng. Sumarið 2016 skilaði hún 482 löxum á stöng og 655 sumarið 2015. Miðað við í fyrra dróst veiðin í Miðfjarðará saman um 28% á milli ára.

Í þriðja sæti yfir veiði á stöng er Haffjarðará. Þar jókst heildarveiðin töluvert á milli ára. Hún fór úr 1.167 löxum sumarið 2017 í 1.545 síðasta sumar. Að meðaltali veiddust 258 laxar á stöng í Haffjarðará sumrið 2018, sem er 32% á milli ára. Í fjórða sæti er síðan Eystri- Rangá með 241 lax á stöng, sem er 85% aukning frá sumrinu 2017. Þar sem laxveiði á Austurlandi hefur verið í lægð síðustu ár hljóta veiðimenn að fagna því að Selá í Vopnafirði sé fimmta sæti listans með 231 lax á stöng. Veiði í Selá jókst um 43% á milli ára.

Hástökkvarinn

Þrjár laxveiðiár til viðbótar þeim sem nefndar hafa verið skiluðu meira en 200 löxum á stöng síðasta sumar en það eru Laxá í Dölum, Affallið í Landeyjum og Ytri-Rangá. Affallið er hástökkvari ársins. Hún fer úr 48 löxum á stöng sumarið 2017 í 218 laxa í síðasta sumar. Nemur aukningin heilum 352%.

Í 9. sæti listans situr síðan litla veiðiperlan í Reykjavík. Elliðaárnar eru gjarnan svolítið vanmetnar af veiðimönnum en þær eru samt ár eftir ár á lista yfir bestu laxveiðiár landsins. Síðasta sumar veiddust 890 laxar í ánum eða 185 laxar á stöng, sem er 8% aukning á milli ára. Ágætis veiði var í hinni laxveiðiánni í Reykjavík síðasta sumar. Veiðin í Úlfarsá, stundum einnig nefnd Korpa, jókst um 106% á milli ára. Hún fór úr 58 löxum á stöng sumarið 2017 í 119 í fyrra.

Til þess að draga þetta allt saman þá skiluðu átta laxveiðiár meira en 200 laxa veiði að meðaltali á stöng síðasta sumar. Til samanburðar voru fjórar ár yfir 200 löxum á stöng sumarið 2017.

Hörð keppni Rangánna

Þegar heildarveiði er skoðuð var hörð keppni um toppsætið á milli Rangánna tveggja. Svo fór að mest veiddist í Ytri-Rangá og Holsá eða 4.032 laxar. Eystri-Rangá var skammt undan með 3.960 laxa veiði. Í heildina voru 12 laxveiðiár með meira en 1.000 laxa heildarveiði síðasta sumar. Hlutfallslega jókst veiðin mest á milli ára í Affallinu eins og áður sagði og mesti samdrátturinn var í Norðlingafljóti eða 76%.

Sumarið 2017 var ekki gott í hinni þekktu laxveiðiá Leirvogsá en þá nam heildarveiðin einungis 116 löxum eða 58 löxum á stöng. Leirvogsá tók við sér síðasta sumar. Þá veiddust 250 laxar eða 125 laxar á stöng sem er 116% aukning á milli ára. Þess ber að geta að sumarið 2017 var maðkaveði í fyrsta skiptið bönnuð í Leirvogsá en síðasta sumar var hún aftur leyfð að hluta.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangaveiði  • laxveiði  • lax