*

Sport & peningar 29. júlí 2020

Moneyball þjálfarinn stofnar íþróttarisa

Nýtt sértækt eignarhaldsfélag hyggst kaupa íþróttafélög og stýra þeim með tölfræðilegri aðferðafræði.

Billy Beane, fyrrum framkvæmdastjóri hafnaboltaliðsins Oakland Athletics, og Wall Street reynsluboltinn Gerry Cardinale munu stofna fyrsta sértæka eignarhaldsfélagið sem sérhæfir sig í yfirtökum á íþróttafyrirtækjum. Financial Times segir frá

Fyrirtækið, sem ber nafnið RedBall Acquisition Corp, hyggst nota gagnagreiningu til að bæta frammistöðu íþróttafélaganna, bæði inni á vellinum og á tekjuhliðinni.  

Cardinale keypti nýlega franska fótboltafélagið Toulouse FC sem féll úr frönsku úrvalsdeildinni í vor. Tvíeykið stefnir á að sækja 575 milljónir dollara í frumútboði RedBall í New York Kauphöllinni. 

Sértæk eignarhaldsfélög sem sérhæfa sig í yfirtökum, oft kölluð fyrirtæki með „óútfyllta ávísun“ (e. blank cheque), eru í tísku þessa stundina. Fyrirtæki sem falla undir þessa skilgreiningu hafa safnað 19 milljörðum dollara á árinu sem er um fimm milljörðum meira en á öllu síðasta ári. 

Beane varð frægur fyrir tölfræðilegu aðferðafræði sína þegar hann stýrði Oakland Athletics á árunum 1998 til 2016. Brad Pitt lék Beane í kvikmyndinni Moneyball sem kom út árið 2011.