*

Hitt og þetta 7. mars 2016

Morgunmatur meistaranna

Eftir vinnu mælti sér mót við Ásgeir Jónsson forseta Hagfræðideildar HÍ.

Eydís Eyland

Ásgeir Jónsson er nýkjörinn forseti Hagfræðideildar hjá Háskóla Íslands. Hann verður 46 ára gamall á þessu ári og tekur kaffið sitt svart.

Hvort ertu A eða B manneskja?

Hvað er A eða B? Ég var mjög eindreginn B-sinni þegar ég var yngri ef það er mælt sem morgunþungi, vilji til að vaka á nóttunni og færni til þess að sofa endalaust fram eftir. Þetta breyttist þó upp úr tvítugu. Ég hætti í háskólanámi árið 1991 og gerðist háseti á togara – en ég hafði upphaflega hafið nám í líffræði. Á sjó er vaktavinna – vakað í sex tíma og sofið í sex. Svo það má segja að morgunþunginn hafi verið vaninn af mér eftir að hafa verið „rifinn upp á rassgatinu“ – eins og það heitir á sjómannamáli – tvisvar á sólarhring í samfleytt 1-2 ár.

Ertu með ákveðna rútínu á morgnana?

Nei, ekki nema hlusta á morgunfréttir í hæstu stillingu við litla hrifningu annarra fjölskyldumeðlima – sem er reyndar nákvæmlega það sama og pabbi gerði þegar ég var krakki.

Hvað gerir þú eftir vinnu?

Ég reyni ávallt að enda daginn á gymminu í World Class. Virka daga vinn ég oft á kvöldin, les eða sinni búi og börnum. Ég vinn einnig yfirleitt fyrri part dags um helgar – en geri eitthvað með börnunum seinni partinn.

Hvað myndirðu gera ef þú værir einræðisherra yfir öllum heiminum í einn dag?

Það er erfitt að hafa vit fyrir öðru fólki – og sérstaklega ef það á aðeins að gerast á einum degi. Ég trúi hins vegar á mannfrelsi bæði í bæði viðskiptum og skoðunum og myndi reyna að veita slíku frelsi brautargengi á þessum eina degi.

Hvern skorar þú á í Morgunmat meistaranna með Eftir vinnu?

Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðingi hjá Samtökum atvinnulífsins.

Nánar er rætt við Ásgeir Jónsson í nýjasta tölublaði Eftir vinnu fylgiriti Viðskiptablaðsins.

Stikkorð: Jónsson  • Ásgeir