*

Ferðalög & útivist 28. mars 2013

Mun bruna niður hlíðar Tindastóls

Heiðdís Lilja Magnúsdóttir ætlar að verja páskunum á Sauðárkróki. „Fallegra verður það ekki,“ segir hún um staðinn.

„Ég ætla norður á Sauðárkrók um páskana og bruna niður fjallshlíðar Tindastóls,“ segir Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, laganemi og nýráðinn sumarstarfsmaður fréttastofu RÚV. Heiðdís Lilja var ritstjóri Nýs Lífs um árabil.

En hvað ætli sé svona sérstakt við Sauðárkrók? „Sauðárkrókur er heimabærinn minn en þar er ég fædd og uppalin. Það besta við að koma á Sauðárkrók finnst mér vera mómentið þegar eyjarnar á Skagafirði, Drangey og Málmey, birtast manni út við sjóndeildarhringinn. Fallegra verður það ekki. Það er mikil náttúrufegurð í Skagafirði og ægifögur fjallasýn. Svo er fínasta skíðasvæði þarna, golfvöllur, blómlegt menningar- og félagslíf, skemmtilegir veitingastaðir og mikil gróska í tónlistarlífinu en á Sauðárkróki er t.d. árlega haldin tónlistarhátíðin Gæran. Ég elska Sauðárkrók,“ segir Heiðdís Lilja.