*

Sport & peningar 11. júlí 2018

Mun fótboltinn snúa heim til Englands?

Enska landsliðið er komið í undanúrslit á HM í fyrsta skipti síðan 1990, en liðið hefur ekki unnið titilinn síðan 1966.

„Fótboltinn snýr heim“ er viðlag lagsins Ljónin þrjú (e. Three Lions) frá 1996, sem samið var í tilefni þess að evrópumeistaramótið í fótbolta var haldið á Englandi það ár, en liðið hafði komist í undanúrslit á heimsmeistaramótinu 6 árum fyrr. Viðkvæðið má nú heyra víða um England, þar sem liðið er – öllum að óvörum – komið aftur í undanúrslit 28 árum seinna.

Tímaritið Economist telur fjórar ástæður fyrir óvæntri sigurför Englands hingað til:

Í fyrsta lagi hafi menn verið óhræddir við að prufa nýja hluti. Gareth Southgate, sem tók við þjálfarastöðunni af Sam Allardyce, hefur litla reynslu í ensku úrvalsdeildinni, og kom því inn með ferskar hugmyndir. Meðal þess sem hann gerði var að endurnýja liðið, meðal þeirra leikmann sem hættu var stórstjarnan Wayne Rooney. Enska liðið var því það þriðja yngsta á mótinu á eftir Frakklandi og Nígeríu.

Í öðru lagi, og samhliða því fyrsta, hefur Knattspyrnusamband Englands lagt mikla áherslu á að fjárfesta í þjálfun ungra leikmanna. Enska liðið í dag hefur spilað meira saman í yngri landsliðum en nokkuð annað enskt landslið.

Þriðja ástæðan er gríðarleg rannsóknarvinna þjálfaranna á föstum leikatriðum, vítaspyrnum, hornspyrnum og aukaspyrnum. Áður en HM hófst hafði England tapað 6 af 7 vítaspyrnukeppnum á stórmóti. Í vítaspyrnukeppninni gegn Kólumbíu í 16-liða úrslitum tóku spyrnumenn Englands sér góðan tíma, og ákváðu fyrirfram hvert þeir ætluðu að skjóta, og höfðu betur eftir æsispennandi viðureign.

Fjórða ástæðan er einfaldlega dágóður skammtur af heppni. Sænska liðið var talið með heppilegri andstæðingum í 8-liða úrslitum, en Englandi auðnaðist að keppa við þá eftir að hafa tapað gegn Belgíu í riðlakeppninni.

Klukkan 6 í kvöld mæta þeir svo Króatíu, sem, þrátt fyrir að enginn vafi leiki á að sé feykigott lið, verður að teljast auðveldara viðureignar en Frakkland eða Belgía; þau lið sem tókust á í fyrri undanúrslitaleiknum í gær.

Hvort fótboltinn endar svo heima á Englandi, ef England ber sigur úr býtum gegn Króatíu, kemur endanlega í ljós á sunnudaginn.

Stikkorð: HM  • fótbolti  • England