*

Menning & listir 9. júní 2013

Muna ekki allir eftir Axel F?

Þýska tónskáldið Harold Faltermayer er konungur bíólaganna.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Franski rafdúettinn Daft Punk sparkaði ítalska tónskáldinu og lagahöfundinum Giorgio Moroder svo um munaði inn í sviðsljósið á nýjan leik á plötu sinni Random Access Memory. Þar baðar Moroder sig á ný eftir alltof of mörg ár í keng í glatkistunni. Þar situr þó eftir önnur stjarna sem áreiðanlega svamlaði um í kampavínsbaði og skemmti sér í sápukúlupartíum með Moroder þegar þeir áttu hvern smellinn á fætur öðrum í kvikmyndaborginni Hollywood á níunda áratug síðustu aldar. Og hver er það? Jú, enginn annar en þýski snillingurinn Harold Faltermayer.

Engu er líkara en Faltermayer hafi lagt sál sína að veði í hinu stórgóða lagi Axel F., lagi sem ekki er hægt að tengja við neitt annað en hinn eldhressa Eddie Murphy í hlutverki lögreglumannsins Axel Foley í Beverly Hills Cop I. Þarna er allt úr höfundarkistu tónskáldsins: Lagið hefst á léttu og stuttu stefi úr einum af þeim fimm eða sex hljóðgervlum sem Faltermayer notaði við sköpunina. Á eftir fylgir rafrænt klapp. Rafmagnstrommur reka lestina. Í miðhlutanum bætist marimban við, þetta klassíska krydd úr Karíbahafinu sem svo margir bandarískir tónlistarmenn notuðu í kringum 1985. Marimban léttir manni lífið og lætur þeim sem njóta tónlistarinnar líða eins og þeir sitji við sundlaugarbar á suðrænni Bahama-eyju með litríkan rommpúns í hönd.

Þeir sem ekki kannast við nafn Faltermayer hljóta að þekkja til tónlistar hans. Þetta er jú maðurinn sem samdi titillagið í Top Gun og auglýsingastofan Brandenburg endurnýtti með eftirminnilegum hætti í fyrstu auglýsingu Wow air. En smellirnir eru mun fleiri, s.s. í Fletch með Chevy Chase í aðalhlutverki og Tango & Cash með félögunum Sylvester Stallone og Kurt Russell. Þá eru ótaldar plöturnar sem hann vann með stórstjörnum á borð við Jennifer Rush. Geri aðrir betur.

Ég mæli með því að fólk setji sprey í hárið, fari í jakkaföt og dragtir, bretti ermarnar upp, reyni að smella á sig gamla mittislindanum og dusti rykið af Beverly Hills Cop I. Tónlist Faltermayers er vel þess virði.

Pistill Jóns Aðalsteinn Bergsveinssonar birtist í Viðskiptablaðinu 6. júní 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Hér má sjá myndbandið við lagið Axel F og brot úr myndinni Beverly Hills Cop.