*

Tölvur & tækni 9. apríl 2018

Myndasíða: Opnun höfuðstöðva Völku

Valka hefur opnað nýjar höfuðstöðvar í Kópavogi en markmið félagsins er að ná 2 milljarða veltu á árinu.

Á fjórðahundrað manns fagnaði formlegri opnun nýrra höfuðstöðva Völku að Vesturvör á föstudaginn. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um stefnir Valka á að tvöfalda veltuna í ár þannig að hún nái yfir tveimur milljörðum króna. Félagið á nú eignir sem nema um 900 milljónum króna, en nýlega fékk það um 300 milljónir í nýtt hlutafé.

Við tilefnið var blásið til ráðstefnu undir yfirskriftinni „Í Alþjóðlegu kapphlaupi hátæknifyrirtækja“, þar sem umræðuefnið var sóknarfæri Íslendinga í fjórðu iðnbyltingunni en Valka er í forystusveit íslenskra fyrirtækja á þeim vettvangi segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Framsögu fluttu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, rektor Háskólans í Reykjavík, Dr. Ari Kristinn Jónsson, Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson frá Aton, Sólveig Arna Jóhannesdóttir, markaðsstjóri botnfiskafurða hjá HB Granda, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins og Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku

Af þessu tilefni sæmdi Sólveig Anna, fyrir hönd HB Granda, Helga Hjálmarsson, framkvæmdastjóra Völku, orðunni gullna karfanum. Lét hún þau orð falla að starf Helga og annarra starfsmanna Völku hefðu skapað meiri verðmæti úr þessum sælkera fiski.