*

Bílar 30. mars 2013

Myndband: Nýr Lexus í keppni við þýsku lúxusbílamerkin

Lexus IS 300h F Sport er væntanlegur á markað innan skamms. Heildarhestaflafjöldi er skráður 223 hestöfl.

Róbert Róbertsson

Lexus IS 300h F Sport er væntanlegur á markað innan skamms en bíllinn var kynntur á bílasýningunni í Genf á dögunum.

Lexus er lúxusarmur Toyota og ætlar sér með þessum bíl í mikla baráttu við BMW þristinn, Audi A4 og Mercedes-Benz C-línuna. Þýsku lúxusbílamerkin hafa yfirleitt haft betur á evrópskum markaði en enginn skal afskrifa þennan nýja Lexus sem lítur út fyrir að vera spennandi bíll og hlaðinn búnaði eins og japanski lúxusbílaframleiðandinn er gjarn á.

Lexus IS 300h F Sport er með 2,5 lítra Atkinson cycle bensínvél sem tengd er rafmótor í gegnum e-CVT gírskiptingu. Rafmótorinn skilar 141 hestöflum en bensínvélin skilar síðan 178 hestum á fullri keyrslu. Heildarhestaflafjöldi er skráður 223 hestöfl sem er fínasta afl.

Bíllinn er 8,3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Þá mun bíllinn vera nokkuð eyðslugrannur og umhverfisvænn. CO2 losunin er frá 99 g/km og eyðslan frá 4,3 lítrum á hundraðið samkvæmt tölum frá framleiðanda. Hér er að sjálfsögðu um að ræða sparneytnustu og umhverfismildustu týpuna.

Stikkorð: Lexus  • Lexus IS 300h F Sport