*

Menning & listir 24. ágúst 2012

Myndbandaleigur að hruni komnar

Hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum. Hagsmunaaðilar telja erlent niðurhal stóra ástæður fyrir brotthvarfi þeirra.

Myndbandaleigum hefur fækkað svo um munar á undanförnum árum. Árið 1990 voru þær 200 talsins, árið 2001 voru þær 206, en árið 2010 hafði þeim fækkað verulega og voru orðnar 95 hér á landi. Í Myndum mánaðarins kemur fram að í dag séu þær um 51 talsins. Fjallað er um málið í Fréttatímanum í dag.

Helstu ástæðurnar fyrir hruni myndbandaleiga eru sagðar ólöglegt niðurhal og aðrir þættir á borð við svokallaðar Vod leigur Símans og Vodafone.

Að meðaltali leigði hver Íslendingur um 11 kvikmyndir árið 2001. Árið 2010 hafði leigan minnkað um meira en helming og að meðaltali leigði hver Íslendingur um 5 kvikmyndir á ári. Ekki eru til tölur fyrir árið í fyrra en talið er að leigan hafi minnkað enn frekar. Á sama tíma hafa innkaup myndbandaleiga minnkað mikið. Árið 2001 keyptu þær um 100.000 myndbönd til útleigu en einungis um 40.000 árið 2010.

Til mótvægis þessari minnkandi myndbandaleigu landsmanna er einnig bent á að sala á mynddiskum hefur aukist verulega á þessum árum. Árið 2001 seldust um 256.000 myndbönd en árið 2010 var salan búin að þrefaldast og um 750.000 myndbönd seldust það árið.

Stikkorð: Myndbandaleigur  • VHS