*

Matur og vín 14. nóvember 2017

Myndi drekka kaffi með Vigdísi

Þúsundþjalasmiðurinn Theodóra Mjöll er nýtt andlit á sjónvarpsskjánum.

Theodóra Mjöll Skúladóttir Jach mun gleðja áhorfendur stöðvar 2 með nærveru sinni í Íslandi í dag á næstunni. Þess utan er vægast sagt nóg annað að gera hjá henni og þar af leiðandi oft lítill tími til þess að gæða sér á morgunverði. Eftir vinnu spurði hana nánar um morgunvenjurnar.

Aldur? 31 árs
Starf? Dagskrárgerðarkona í Ísland í dag, vöruhönnuður, flugfreyja og eilífðar hárspekúlant.
Stjörnumerki? Vog.

Ertu a eða b týpa?
Ég myndi segja að ég væri b plús týpa, sem þýðir að ég kýs að fara að sofa um miðnætti og vakna helst í hádeginu daginn eftir (sem er auðvitað sjaldan sem aldrei í boði). Mig langar þó ekkert frekar en að vera a megin í lífinu og er alltaf að reyna að mastera þá list, með misjöfnum árangri, þar sem ég dáist hreinlega að a týpum.

Leggur þú í vana þinn að snúsa?
Já, ég get snúsað í allt að klukkutíma. En ef ég er í morgunflugi þá er vekjaraklukkan stillt á svo óguð- legum tíma að það er ekki rými fyrir snús.

Hvenær svafstu síðast yfir þig?
Þó svo að ég sé b + þá sef ég laust og sef því aldrei yfir mig. Það gerist kannski einu sinni á þriggja ára fresti, ef það. En ég er alltaf á síðasta snúningi sem er nátengt því að sofa yfir sig. 

Hvað borðar þú yfirleitt í morgunmat?
Ég er svakaleg Cheerios kerling. Annars finnst mér rosalega gott að fá mér kaldan hafragraut sem ég geri kvöldinu áður.

En þegar þú ert á hraðferð?
Þar sem ég er alltaf á síðasta snúningi hef ég yfirleitt 20 sekúndur til að fá mér morgunmat, og þá er Cheerios besti vinur minn.

Ertu meira fyrir te eða kaffi?
Ég er jafnmikið fyrir bæði. Ég elska kaffi á daginn og te á kvöldin. Á veturna fæ ég mér 1-2 tebolla á hverju kvöldi. Þá er piparmintute í miklu uppáhaldi því það róar meltinguna og slær á sykurlöngunina.

Hvað borðar þú í morgunmat um helgar?
Mig langar alveg ofboðslega mikið að segja að ég fái mér eitthvað stórkostlegt eins og ferska ávexti og skál með hörfræjum, en ég er bara í Cheerios-inu. Ég bæti það þó stundum upp með því að fá mér brjálæðislega góðan bröns.

Ef þú gætir drukkið einn morgunbolla með hverjum sem er, hver yrði fyrir valinu?
Ég væri alveg mikið til í að spjalla við hana Vigdísi Finnbogadóttur yfir einum rjúkandi. Þá myndi ég spyrja hana út í líf hennar, reynslu og hvort hún væri með snapchat. Hún er svo stórkostlega merkileg kona og ég lít mikið upp til hennar.

Morgunverðaruppskrift:
Setjið Cheerios í skál og hellið haframjólk yfir. Voila! Á betri dögum þá finnst mér þessi hafra- grautur svakalega góður: - 1 lúka hafrar - 2 skeiðar chia fræ - 1 skeið hveitiklíð - 1 skeið ristaðar kókosflögur -Hella svo vatni og haframjólk yfir, hræra vel og geyma í ísskáp yfir nótt. kolbrun@vb.is