*

Sport & peningar 2. júní 2012

Boot Camp undirbýr flutninga - myndir

Nýtt húsnæði Boot Camp í Elliðaárdal verður tekið í notkun á næstu dögum. Viðskiptablaðið heimsótti stofnendur Boot Camp í nýju húsnæði.

Gísli Freyr Valdórsson

 

Nú er unnið hörðum höndum að því að klára nýtt 1.400 m2 húsnæði Boot Camp í Elliðaárdal og mun líkamsræktarstöðin flytja þangað á næstu dögum. Boot Camp hefur sl. 5 ár verið á Suðurlandsbraut (þar sem Gym 80 var áður til húsa) en að sögn Arnaldar Birgis Konráðssonar, framkvæmdastjóra og annars eigenda Boot Camp, eru um 2 ár síðan húsnæðið var orðið of lítið fyrir starfsemina.

„Fyrir utan það að vera með Boot Camp þá höfum við aukið við starfsemina í þá átt að bjóða einnig upp á CrossFit, barna- og unglinganámskeið, teygjutíma auk þess sem við höfum verið með leikfimi fyrir ófrískar konur um árabil,“ segir Arnaldur Birgir.

„Við höfum fundið fyrir því að núverandi húsnæði var orðið allt of lítið og hindraði í raun frekari vöxt. Við stóðum því frammi fyrir því að annað hvort skera niður starfsemina eða stækka við okkur og bjóða þá um leið upp á þá þjónustu sem kallað var eftir.“

Það er ljóst að starfsemi Boot Camp verður með allt öðrum hætti en áður. Róbert Traustason, sem stofnaði Boot Camp ásamt Arnaldi Birgi, segir þó að það sérstaka andrúmsloft sem ríkir á Boot Camp æfingum fylgi með í flutningunum.

Hér að neðan má sjá myndir sem Haraldur Guðjónsson, ljósmyndari Viðskiptablaðsins, við undirbúning hins nýja húsnæðis.

 Nýtt húsnæði minnir um margt á kvikmyndaver. Hér er búið að setja upp upphífingabúr en enn á eftir að skreyta veggina. 

 

Iðnaðarmenn vinna nú dag og nótt að því að klára húsnæðið. Þar verða þrír salir sem nýttir verða til æfinga, einn fyrir Boot Camp, einn fyrir CrossFit og einn fyrir annars konar leikfimi, s.s. mömmuleikfimi. 

Það verður ekki annað sagt en að það verði fallegt útsýni úr lyftingasalnum í nýju húsnæði Boot Camp.  

Húsnæðið er í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar athafnamanns sem meðal annars á Subway á Íslandi. Skúli Gunnar fjármagnar að mestu leyti viðeigandi breytingar á húsnæðinu en tækjakaup og þess háttar fellur í hlut Boot Camp.  

Í nýju húsnæði mun Boot Camp í fyrsta sinn bjóða upp á barnagæslu en að sögn Arnalds Birgis hefur verið mikil eftirspurn eftir því. Þá verður einnig opnuð veitingasala sem mun bjóða upp á létta rétti, heita og kalda drykki o.s.frv. Veitingasalan er einnig ætluð öðrum en þeim sem æfa í húsinu, en þeir Arnaldur Birgir og Róbert segjast vonast til þess að þeir fjölmörgu aðilar sem nýti sér dalinn til útivistar komi þar við.

Arnaldur Birgir lýsir útisvæðinu sem vonast er til að klárað verði í sumar. Þar verður æfingaraðstaða, heitir pottar og fleira.

Arnaldur Birgir Konráðsson og Róbert Traustason, stofnendur og eigendur Boot Camp.